Eins og margir vita er Biblían safn margra rita sem tekin hafa verið saman í eitt stórt rit, Biblíuna. Biblían hefur með margvíslegu móti talað til okkar manna í gegnum aldirnar og hefur verið mönnum athvarf og skjól í amstri daglegs lífs. Og það merkilega er að þessi gamla bók á ennþá erindi við okkur í dag. Biblían segir afdráttarlaust frá fólki,
hún fegrar það ekki né upphefur, heldur segir frá því eins og það var,breyskt og ófullkomið, alveg eins og við erum enn þann dag í dag. Af öllum merkilegum og minnisstæðum persónum hennar þykir mér einna vænst um Hiskía, konung í Júda. (2. Kon. 18.-20. kafli ) Hann varð konungur 25 ára gamall, var einlægur trúmaður og ef þjóð hans eða hann sjálfur var í vanda, þá rakti hann raunir sínar frammi fyrir Drottni og leitaði hans í bæn. Til dæmis er hann fékk vondar fréttir í formi sendibréfs frá Assýríukonungi, þá gekk hann upp í hús Drottins og rakti bréfið sundur frammi fyrir Drottni, gjörði bæn sína, sagði honum frá áhyggjum sínum og Drottinn leysti farsællega úr vandamálum hans. (2. Kon.19: 14-37) Og Guð mætir sannarlega okkur mönnunum enn í dag, sjaldnast með stórum og miklum opinberunum, eða með lúðrablæstri og stórkostlegum flugeldasýningum, heldur miklu fremur í kyrrðinni og þögninni, í „blíðum hvíslandi vindblæ“, eins og það er orðað þegar Drottinn mætti Elía til að opinbera honum vilja sinn. (1.Kon. 19: 11b-12)
Í Nýja testamentinu stendur hins vegar allt og fellur með Jesú frá Nasaret. Þar segir að hann hafi komið frá Guði, en hann hafi ekki „farið með það sem feng sinn að vera Guði líkur, en hafi verið hlýðinn allt til dauðans á krossi“. (Fil. 2: 6-8) Jesús var sendur í heiminn af Guði til þess að frelsa synduga menn, hann kom til að opinbera mönnum vilja Guðs með líf okkar. Jesús snýr öllu mannlegu verðmætamati á hvolf því að oft getur verðmætamat Guðs verið annað en okkar. Saga ein eftir Sören Kirkegaard, frægan guðfræðing, segir frá því að „nótt eina brutust nokkrir þjófar inn í skartgripaverslun. En í stað þess að stela nokkru víxluðu þeir öllum verðmiðunum. Næsta dag vissi enginn hvaða skartgripir voru dýrir og hverjir ódýrir. Dýru skartgripirnir voru skyndilega orðnir ódýrir og þeir ódýru orðnir dýrir. Þeir sem töldu sig vera að kaupa rándýra og vandaða skartgripi voru í rauninni að kaupa verðlaust drasl. Þeir sem ekki höfðu efni á dýrum skartgripum fóru heim með gersemar“. Jesús talar um með sínum hætti að brotist hafi verið inn í okkar heim og verðmiðunum víxlað. Þess vegna reynist mörgum erfitt að segja til
um verðmæti hluta. Háir verðmiðar eru stundum settir á auðsöfnun, völd og frama, svo að eitthvað sé nefnt, en þetta eru einmitt þeir hlutir sem Jesús segir verðlausa, í einu „skartgripaversluninni“ sem máli skiptir, sem er Guðsríki. Jesús vill að við leitumst við að gera hið góða eins og við mögulega getum. Þess vegna er ein uppáhaldsdæmisagan mín í Nýja testamentinu sagan sem Jesús sagði af rangláta ráðsmanninum. (Lúk. 16.1-9) Hann var slóttugur og sveifst einskis við að koma sínu fram, þótt það væri á kostnað annarra. Þannig segir Jesús að við eigum að vera, bara með öfugum formerkjum. Við eigum að kappkosta, bæði dag og nótt, að gera hið góða hvar sem það er á okkar valdi, að reyna að vera kærleiksrík og gefa af því sem við eigum og höfum. Þannig lifum við upprisumegin í tilverunni. Guð gefi okkur góðar og blessaðar stundir.

Sr. Hildur Sigurðardóttir