Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar þar sem fram er borið það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Þingið var fyrst haldið árið 1996 og er því 20 ára í ár. Málstofur verða haldnar í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 11. mars frá 13.15-17.15 og laugardaginn 12. mars frá 10.00 til 16.30. Léttar veitingar verða í boði að þingi loknu.

Jesajaritið er ásamt með Davíðssálmum það rit Gamla testamentisins sem mest áhrif hefur haft í kristninni. Birtist það þegar í því að til þessara tveggja rita Gamla testamentisins er oftast vitnað í Nýja testamentinu. Ritið, sem kennt er við spámanninn Jesaja sem uppi var í Jerúsalem á 8. öld f. Kr., á sér flókna myndunarsögu. Þannig er það ríkjandi skoðun að kaflar 40-55 í ritinu séu ekki frá Jesaja sjálfum komnir heldur ókunnum spámanni (oft nefndur Jesaja annar) sem starfað hafi meðal útlaga frá Júda sem herleiddir höfðu verið til Babýlon eftir fall Jerúsalem 586 f. Kr. Inn á það efni verður að einhverju leyti komið í þessari málstofu en áherslan hvílir þó fyrst og fremst á boðskapi eða guðfræði ritsins, ekki aðeins í hinu upprunalega samhengi textanna innan hins forna ritsafns heldur einnig í síðari tíma túlkunarsögu, þ.m.t. í menningu og listum. En víða verður komið við, svo sem í fornleifafræði og tónlist, svo ólíkar greinar séu nefndar. Áherslan hvílir á fjölbreytileika ritsins bæði að efni til og langri túlkunarsögu þess.
Málstofa um Jesajaritið verður haldin föstudaginn 11. mars kl.13:15 – 14:45 í stofu 222
Málstofustjóri: Gunnlaugur A. Jónsson
Fyrirlesarar og titlar erinda:

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans.“ Af myndmáli huggunarboðskaparins í Jesaja 40-55
Jón Ásgeir Sigurvinsson, guðfræðingur og löggiltur skjalaþýðandi: Hiskía konungur í sögu og sögn
Sveinn Valgeirsson, dómkirkjuprestur og stundakennari við guðfræði- og trúarbragðafræðideild: „Huggið, huggið lýð minn.“ Jesaja í óratoríunni eftir Handel

​Fundarstjóri: Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags

Útdrættir:

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans.“ Af myndmáli huggunarboðskaparins í Jesaja 40-55

Jesajaritið hefur stundum verið kallað fimmta guðspjallið. Ástæðunnar er einkum að leita í þeim fagnaðarboðskap sem þar er fluttur og er aðallega að finna í köflum 40-55. Sá hluti ritsins er talinn eiga rætur að rekja til spámanns sem við þekkjum ekki nafnið á, en er almennt nefndur Jesaja annar eða þá einfaldlega huggunarspámaðurinn. Hann flutti boðskapinn Gyðingum sem voru í útlegð í Babýlon og höfðu verið herleiddir þangað af Babýlóníumönnum eftir að Jerúsalem hafði fallið fyrir hermönnum Nebúkadnesars Baýlóníukonungs 586 f.Kr. og musterið helga verið jafnað við jörðu. Í k. 40-55 er nýr tími runninn upp. Spámaðurinn ókunni boðar huggun sem felst í því að áþjánin sé senn á enda og heimför á næsta leiti. Afar fjölbreytilegt og fallegt myndmál einkennir þennan huggunarríka boðskap og er það hebreska myndmál viðfangsefni þessa erindis. Gaumur verður einnig gefinn að því hvaða áhrif þetta myndmál hefur haft á síðari tíma menningu og listir.

Jón Ásgeir Sigurvinsson, guðfræðingur og löggiltur skjalaþýðandi: Hiskía konungur í sögu og sögn

Gamla testamentið er fjölbreytt að gerð og innihaldi. Auk lagatexta, spakmæla, persónulegrar tjáningar Davíðssálma, spámannlegrar ádeilu og goðsagna, svo eitthvað sé nefnt, er þar að finna „sögulegar“ frásagnir sem vísa iðulega til konunglegra annála nágrannaríkjanna Ísraels og Júda sem heimilda. Síðastliðna öld hafa gríðarmiklar fornleifarannsóknir átt sér stað í Ísrael og nágrannaríkjum þess og sjónir fræðimanna hafa skiljanlega beinst að því hvort niðurstöður þeirra komi heim og saman við hina sögulegu hluta Gamla testamentisins. Hið mikla rit kennt við Jesaja spámann inniheldur ýmsar sögulegar skírskotanir og er þar helst að nefna k. 36-39 sem eru að miklu leyti samhljóða samsvarandi frásögn í 2. Konungabók hvar segir frá umsátri Assyríumanna um Jerúsalem á valdatíð Hiskía konungs í Júda. Í erindinu verður rætt annars vegar um þá mynd af konungnum sem textar Gamla testamentisins bregða upp og hins vegar þær upplýsingar sem til eru um hann og stjórnartíð hans utan G.t., bæði af áletrun Sanheribs og úr fornleifauppgröftum. Einnig verður hugað að sambandi Jesaja og konungsins skv. söguskoðun þeirri sem textarnir birta.

Sveinn Valgeirsson, dómkirkjuprestur og stundakennari við guðfræði- og trúarbragðafræðideild: „Huggið, huggið lýð minn.“ Jesaja í óratoríunni eftir Handel

Messías eftir Händel er eitt hið vinsælasta kórverk til flutnings sem um getur og þar af leiðandi má ætla að sá texti sem þar er fluttur hafi borist býsna víða.

Í fljótu bragði má ætla, að þar sem titillinn Messías vísar sterkt til Jesú Krists, þá séu textar Nýjatestamentisins ráðandi í óratoríunni. Svo er ekki; töluvert efni Messíasar er einmitt sótt til Jesajaritsins.

Í þessum fyrirlestri verður farið yfir hvaða textar Jesajaritsins koma fyrir í Messíasi og hvaða stöðu þeir hafa innan tónverksins auk þess sem leitast verður við að tengja verkið við þá guðfræðilegu strauma sem voru hvað mest áberandi á þeim tíma sem oratorían Messías er samin. (Engin tóndæmi; engin plötukynning).