Þegar ég var 13 ára fékk ég í fyrsta sinn að dvelja í Vatnaskógi og er það upplifun sem ég hef búið að síðan og verið ófáar næturnar sem maður hefur dvalið í Skóginum síðan þá og á staðurinn sérstakan stað í hjarta mínu eftir allan þann tíma sem ég hef starfað þar.

Eins og margir þekkja þá eru bænastundir á hverju kvöldi eftir kvöldvöku á sumrin í dvalarflokkunum og fengum við að kynnast orði Guðs þar á mjög einlægan hátt. Eitt af því sem okkur var kennt var að draga hin svokölluðu mannakorn með vísun á ritningastað í Biblíunni. Þegar við vorum að smíða í bátaskýlinu þá stóð okkur til boða að fá litla trjádrumba sem búið var að höggva í sundur og máttum við brennimerkja á þá einhvern texta eða búa til okkar eigin skilti. Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Garði og Sandgerði, var borðforinginn minn þá og stakk upp á því að við gætum farið út í kapelluna og dregið okkur mannakorn, flett upp versinu og notað það til þess að brennimerkja á trjádrumbana góðu.

Versið sem ég dróg í kapellunni upp í Vatnaskógi og ég merkti síðan á trjádrumb, sem ég á ennþá, er í fyrra bréfi Páls til Kortintumanna, kafla 12, vers 21 og er svo hljóðandi skv. gömlu þýðingunni:

,,Lát ekki hið vonda yfirbuga þig heldur sigra þú illt með góðu“.

Þessi orð hafa verið mér í hjartastað síðan þá og var þetta fermingaversið mitt þegar ég steig fram fyrir altarið í Bústaðakirkju vorið eftir dvölina í Vatnaskógi og játaði spurningu sr. Pálma Matthíassonar um það hvort ég vildi gera Jesú Krist að leiðtoga í lífi mínu og staðfesta þar með skírnina sem ég gekkst undir í sömu kirkju vorið 1979.

Þessi orð fela í sér svo sterkt inntak kristinnar trúar og hvernig við eigum að umgangast fólk eða þær aðstæður sem við upplifum í lífinu. Þó svo að ég hafi geymt þessi orð mér í hjartastað þá er það ekki svo að ég hafi alltaf í huga mínum fylgt þeim eftir og opinberast þá um leið breyskleiki mannsins og hversu vanmáttug við erum oft í því sem við lendum.

Hinsvegar þá gefa þessi orð okkur það fyrirheit að sama hvað á gengur og yfir okkur mun ganga að þá er það okkar skylda að nálgast allt í okkar lífi með kærleika og góðmennsku. Sama hvort það er yfirgangur netfauta, stjórnvalda, fólks í lífinu, ökumanna, samstarfsfólks, yfirmanna, kennara, nemenda eða frá hverjum þeim sem við eigum í samskiptum við að þá er það kærleikurinn, sem opinberast í ást frelsara okkar fyrir okkur, sem á að ráða ríkjum.

Látum ekki hið slæma og neikvæða ná tökum á okkur. Stígum frekar skrefið til baka, íhugum og stígum síðan fram í góðmennsku, kærleika og trú með okkar sterkasta bandamanna á bakvið okkur.

Magnús Viðar Skúlason
Sérfræðingur hjá IMC Ísland ehf.