„Við þökkum Guði fyrir að landið okkar er nú orðið frjálst frá ebólu-veirunni“ segir Paul Stevens, framkvæmdastjóri biblíufélagsins í Líberíu. Eins og allir aðrir, er starfsfólki biblíufélagsins létt, þar sem baráttunni við ebólu-veiruna er loks lokið. Yfir 4000 manns létust af völdum sjúkdómsins.

Biblíufélagið í Líberíu ásamt starfsfólki Rauða Krossins var fljótt að bregðast við þegar ebólu faraldurinn gekk yfir landið. Félögin aðstoðuðu við flutninga á fólki, komu börnum á munaðarleysingjahæli og settu upp miðstöðvar fyrir sjúklinga í sóttkví. Biblíufélagið mun halda áfram að hjálpa fólki sem misst hefur ástvini sína og lífsviðurværi.

Tupee Kpeyou missti eiginmann sinn í ebólu.

„Starfsfólk biblíufélagsins kom með mat til mín þegar nágrannar mínir forðuðust mig og voru hræddir að vera nálægt mér. Ég var svo þakklát. Eftir að maðurinn minn lést úr ebólu fór ég í sóttkví og eftir tveggja mánaða meðhöndlun var mér leyft að fara heim aftur. Ég er þakklát fyrir að ég hafi fengið að lifa, ég á fjögur börn sem ég þarf að hugsa um“.

„Í þessari ringulreið sem skapaðist hér leið fólki mjög illa. Við gátum aðstoðað fólk, veitt þeim mat og snyrtivörur ásamt huggunarorðum og vonarboðskap Biblíunnar. Ebólan hefur skilið eftir sig mörg munaðarlaus börn og einstæða foreldra. Þetta fólk þarf áframhaldandi aðstoð sem við ætlum að veita þeim“ segir framkvæmdastjóri biblíufélagins í Líberíu.