Biblían, helgirit kristinna manna, er mikil bók sem margir nýta sér í daglegu lífi. Hún er safn trúarrita sem sum eru meira en 2000 ára gömul en önnur nokkuð yngri. Orð Guðs í Biblíunni færir okkur kærleiksboðskap Jesú Krists, leiðbeinandi siðfræði og veitir styrk, huggun og leiðsögn á lífsins vegi. Það er því dýrmætt að geta lesið í Biblíunni sér til uppbyggingar og góðs. Ég eignaðist mína fyrstu Biblíu árið 1984 er ég brautskráðist sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands og föðursystir mín gladdi mig með þessari góðu útskriftargjöf. Þessi gjöf var mér dýrmæt og ég handlék bókina oft. Það liðu hins vegar mörg ár áður en ég varð fyrir alvöru handgengin Biblíunni og dýrmætur boðskap hennar tók að auðga líf mitt. Það getur krafist leiðsagnar að ná valdi á að lesa sér til uppbyggingar þessa góðu bók og langar mig því að deila með lesendum hvernig það gerðist í mínu lífi.
Árið 2000 sótti ég námskeið á vegum Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar sem reyndist mér gagnlegt í þessu sambandi. Bar það heitið ”Lifandi steinar” og fjallaði um helgihald og hversdagslíf. Á því var m.a. sagt frá ritum Biblíunnar, þátttakendum kennt að fletta upp í henni og þeir fengu tækifæri til að leysa heimaverkefni sem hvöttu til umhugsunar um boðskap gefins biblíutexta. Það var nýtt fyrir mér að vera spurð að því hvernig tiltekinn biblíutexti talaði til mín eða hver mér fyndist boðskapur hans vera. Þarna varð ég handgengin Biblíunni og ígrundunin skerpti á minni persónulegu trú.
Skóli Orðsins (LECTIO DIVINA) var annað námskeið sem ég sótti á vegum Leikmannaskólans nokkrum árum seinna. Þar lærði ég að lesa Biblíuna á nýjan hátt. Aðferðin var í fimm þrepum og byggði á að nálgast Biblíuna í stórum eða litlum hópum og í einrúmi. Á fyrsta þrepinu var skapað andrúmsloft kyrrðar og tilbeiðslu, þannig að ró kæmist á skilningarvitin, sem skerpti skilninginn á því sem lesið var. Á öðru þrepinu var valinn biblíutexti lesinn upphátt nokkrum sinnum og spurt um merkingu hans í sögulegu ljósi. Þriðja þrepið fól í sér stund fyrir kyrrð og íhugun. Þátttakendur spurðu sig hvaða merkingu orð Biblíunnar færðu inn í kringumstæður daglegs lífs. Hvað vildi Guð segja þeim? Á fjórða þrepinu var sameinast í bæn, hugsanir og íhuganir  lagðar í Drottins hönd. Í bæninni nálguðumst við Jesú, fundum að hann var nálægur og vildi mæta okkur. Í lokin, á fimmta þrepinu, ræddum við saman um biblíutextann. Við gáfum hvert öðru hlutdeild í hugsunum okkar án þess að rökræða eða gagnrýna. Með þessum hætti gátum við komið auga á fleiri fleti á textanum eins misjöfn og við vorum.
Að lokum langar mig til að nefna “Biblíuöskjuna” sem inniheldur 200 spjöld með ritningargreinum úr Biblíunni. Það hefur fært dýrmætt veganesti inn í daglegt líf mitt að draga spjald með orði Guðs úr öskjunni og hefur um leið aukið áhuga minn á lestri Biblíunnar. “Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum” Sálm. 119:105

Bergþóra Baldursdóttir, sjúkraþjálfari