Elsta félag á Íslandi 200 ára
Þann 10. júlí 2015 eru liðin 200 ár síðan komið var saman að Aðalstræti 10 í Reykjavík eftir fund  prestastefnu í Dómkirkjunni.  Ákveðið var þar að stofna félag og því kosin stjórn. Skyldi félagið setja sér markmið og skyldur til útgáfu Biblíunnar á íslensku, gera lestur hennar og aðgengi fær öllum Íslendingum.  Félagið hlaut nafnið Hið íslenska biblíufélag.  Eftir óslitið farsælt starf í 200 ár er biblíufélagið elsta félag á Íslandi. Sannarlega er vert að þeirra tímamóta sé gaumur gefinn og þeirra minnst.  Biblíufélagið er sameiginlegur vettvangur allra kristnu safnaða landsins.  Meðal kristins fólks þar og víða um veröld er Biblían jafnan nefnd Guðs orð.  Í því felst sú sannfæring, að sé hlustað í einlægni á það sem þar stendur, megi skynja nálægð þess, sem er ofar öllu, en vill samt hafa samband við fólk til stuðnings og hjálpar.  Það var uppörvun sem reyndist íslenskri þjóð það vel í baráttu lífsins að oft skipti sköpum og gaf þjóðinni getu til að lifa af, sem ella hefði ekki tekist.  Biblían var lifandi bók, eins og hún er nú meir en nokkru sinni fyrr um alla veröld.
Svo samanslungin hefur Biblían verið menningu og hugsun þjóðar okkar, að hvarvetna má sjá skýr mörk þess.  Bent hefur t.d. verið á af fræðimönnum að löngu áður en þjóðin eignaðist  heildarútgáfu Biblíunnar á íslenska tungu hafi orð og líkingar Biblíunnar samfléttast öllu máli þjóðtungunnar.  Það komi fram í einstökum orðum, orðasamböndum, orðatiltækjum, málsháttum, nafnahefð, flest af því að líkindum frá upphafi þjóðar. Ekki er langsótt að segja notkun Biblíunnar einn mikilvægasta þátt í varðveislu tungu og þar með þjóðar.

Þess ber að minnast á tímamótum.  Að stuðla að því farsæla í lífi einstaklinga og þjóðar er hlutverk elsta félags landsins. En þá er ótalið það merka starf sem félagið er þátttakandi í á heimsvísu.  Þegar félagið var stofnað árið 1815 var það fyrir hvatningu hins mæta manns og Íslandsvinar Ebenezer Hendersons.  Hann kom á vegum breska biblíufélagsins og því tókust mikilvæg tengsl.  Þegar biblíufélög víða um veröld mynduðu samtök, „Sameinuðu biblíufélögin“ (UBS  –  unitedbiblesocieties.org), varð íslenska félagið þar í hópi.  Þar eru nú meir en 200 hliðstæð félög hvaðanæva í heiminum.  Af því hefur íslenska félagið notið stuðnings, en líka fengið að taka þátt í spennandi verkefnum.  Á vegum aðildarfélaganna er unnið að útgáfu og dreifingu Biblíunnar og biblíuhluta, – mikið þýðingarstarf fer þar fram og oftar en ekki fylgir því smíði ritmáls.  Biblíum er dreift í tugmilljónum árlega, biblíuhlutum í hundruðum milljóna eintaka, en samt tekst ekki að fullnægja þörfum.  Þar eru verðug verkefni.

Biblían er lifandi bók, það sést m.a. af þessu.  Mest er hún þó lifandi, þar sem hún nær því að hressa sálu, leiða réttan veg.  Það er vert að minnast þess á 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags og taka þátt í góðu verki.  10. júlí verður guðsþjónusta í Dómkirkjunni, gengið til stofnstaðarins og gerð heitstrenging til að efla gott starf.

Sr.Valgeir Ástráðsson