Næstum því allt sem skrifað hefur verið um Jesú er skráð í guðspjöllin fjögur. Það er ekki vitað nákvæmlega hvenær Jesús fæddist en þeir sem hafa rannsakað guðspjöllin og samtíðarsögu Nýja testamentisins eru sammála um að Jesús hafi fæðst ekki síðar en 4. f.Kr. Það er ekki vitað hvernig Jesús leit út en það er vitað að hann var umferðarprédikari í Galíleu hluta ævi sinnar, sem er í norðurhluta Palestínu. Flestir álíta að starf hans hafi staðið í um það bil þrjú ár. En hvað fannst fylgjendum Jesú svona mikilvægt við hann?
1.    Það sem hann sagði um Guð.
2.    Það sem hann sagði um hvernig menn skyldu haga lífi sínu.
3.    Hvernig fylgjendur Jesú urðu sannfærðir um að hann væri Messías.
4.    Að skýra hvernig á því stóð að margir Gyðingar trúðu því ekki að hann væri Messías og hvers vegna þeir létu dæma hann til dauða.
5.    Að skýra frá því hverju fylgjendur Jesú trúðu um hann.

Ýtarlegustu hlutar guðspjallanna segja frá síðustu dögum Jesú með lærisveinum sínum áður en hann var krossfestur og upprisu hans. Upprisa Jesú markaði þáttaskil í lífi lærisveinanna.
Á föstudaginn langa, þegar Jesús hafði verið krossfestur, er líklegt að margir hafi andað léttar í Jerúsalem. Leiðtogum Gyðinga hefur verið létt vegna þess að nú var búið að ryðja þessum trúvillingi úr vegi. Rómverskum yfirvöldum hefur verið rórra vegna þess að nú var enn ein hættan á uppreisn liðin hjá.
Og það var ekki vafi á að lærisveinar Jesú hafi einnig haldið að nú væri öllu lokið. Þetta var dagurinn þegar allar björtustu vonir þeirra hrundu til grunna. Og þeir höfðu bundið miklar vonir við Jesú. Þeif höfðu trúað því að guðsríki væri í nánd. Nú var öllu lokið. Jesús hafði verið negldur á kross og síðan lagður í gröf. Og þeim hefur verið ljóst að þeit gætu hlotið sömu örlög ef þeir dirfðust að láta á sér bera. En þrátt fyrir allt! Sjö vikum síðar voru þessir sömu menn teknir að prédika opinberlega í Jerúsalem og héldu því blákalt fram að Jesús hefði verið Messías og að leiðtogar þjóðarinnar hefðu látið taka þennan Messías af lífi. Og það sem meira var. Þeir héldu því ákveðið fram að Jesús hefði risið upp frá dauðum, hann væri lfiandi, þeir hefðu séð hann og nú væri hann stiginn upp til himna og mundi koma aftur til að dæma lifendur og dauða. Nei, það var langt frá því að öllu væri lokið! Hvað hafði gerst á þessum sjö vikum? Höfundar guðspjallanna segja ýtarlega frá því. Jesús hafði verið krossfestur á föstudegi. Næsta sunnudag höfðu þeir orðið fyrir reynslu sem þeir gátu ekki skýrt nema á einn hátt. „Jesús er risinn upp frá dauðum“
Þeir vissu að Jesús var lifandi og mitt á meðal þeirra. Ekki á sama hátt og áður fyrr í Galíleu, hann var öðruvísi en þó hinn sami Jesús.
Hann var lifandi!
Og sú staðreynd að jesús var lifnaður aftur þýddi það að allt sem þeir höfðu vonað og trúað var satt.
Jesús var Messías.
Guð var að verki í honum.
Guðsríki var komið.
Það sem Jesús hafði kennt þeim var satt.
Í sex vikur fengu þeir að reyna návist hans.
Nú vissu þeir að tími var kominn til að segja öðrum frá Jesú og því sem þeir höfðu reynt. Og þeir vissu að andi hans yrði með þeim og mundi leiðbeina þeim í starfi þeirra.

Matteus 28 :16-20
En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Unnið  upp úr bókinni Orðið eftir séra Sigurð Pálsson