Það er alltaf spennandi tilfinning að byrja á nýrri bók.  Tilfinningin jafnast á við að nýr heimur sé að opnast með áður óþekktu fólki og umhverfi sem við höfum aldrei séð fyrr.  Við byrjum á byrjuninni og smám saman kynnumst við lífi persónanna þar til síðasta blaðsíðan er lesin. Þannig er ferill bóklesturs okkar í langflestum tilfellum. Þannig er því þó ekki varið um sjálfa bók bókanna, Biblíuna, en í ár er elsta félag landsins Hið íslenska Biblíufélag 200 ára gamalt.
Biblían skiptist í tvo meginhluta, Gamla Testamentið þar sem eru 39 bækur og Nýja Testamentið þar sem eru 27 bækur.  Þetta er heilt bókasafn.
Bækur biblíunnar eru skrifaðar á löngum tíma af mörgu fólki, væntanlega bæði konum og körlum, sem miðla okkur hvernig fólk upplifir handleiðslu Guðs í lífinu.
Bækur Gamla Testamentisins hafa ólík bókmenntaform.  Þar eru fjölskyldusögur, ljóð og spádómar.  Nýja testamentið segir frá lífi, starfi, dauða og upprisu Jesú og hvernig fyrsta kristna fólkið fór að því að feta sig í lífinu eftir að hin nýja trú fór að breiðast út.  Í því eru líka sendibréf til fyrstu safnaðanna þar sem inntaki trúarinnar er lýst.
Í guðspjöllunum er frásaga af Jesú þar sem hann birtist lærisveinum sínum upprisinn á uppstigningardag. Þá kallaði hann vini sína til sín og fól þeim mikilvægt hlutverk, að fara út um allan heim, skíra fólk og kenna því allt það sem hann hafði kennt þeim.  Þessu boði fylgdi loforð um að hann skyldi vera með þeim allt til enda veraldarinnar.  Þetta var fólk sem tók hlutverk sitt alvarlega, fór út um allan heim og sagði fólki frá, síðan sagði næsta kynslóð börnum sínum frá og þannig hefur boðskapur Jesú um kærleikann borist frá einni kynslóð til annarrar allt til dagsins í dag.
Orð Biblíunnar eru mismikilvæg.  Allra mikilvægustu orðin eru orð Jesú. Davíðssálmarnir í Gamla testamentinu eru líka mjög mikilvægir af því að þeir voru bænabók Jesú og hann vitnar oft í þá.
Við sem þekkjum boðskap Jesú berum mikla ábyrgð á því að koma boðskapnum áfram. Grundvöllur þekkingar okkar á Guði er í Biblíunni.  Þess vegna er svo mikilvægt að við lesum í henni og þá þarf ekki að byrja á fyrstu blaðsíðu.  Þegar við byrjum að lesa Biblíuna, er best að kynna sér hvert rit fyrir sig, skoða hvers eðlis ritið er og frá hvað tíma.  Svo getum við lesið það sem okkur finnst mest spennandi.

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum