Hvernig daglegur biblíulestur mun breyta lífi þínu á fjóra vegu:

Ef þú kafar reglulega til botns í Orði Guðs opnast þér glænýjar gáttir.
eftir Neal Samudre

Í öllum þessum skarkala nútímans getur reynst erfitt að láta daglegan biblíulestur ganga fyrir öllu öðru. Mörg okkar hafa hraðan á strax og farið er á fætur, og annríkið lætur ekki undan síga fyrr en farið er í háttinn að kvöldi. Jafnvel þótt þráin sé til staðar, hefur daglegt amstur forgang gagnvart lestri í Biblíunni.

Samt gerist það þá daga sem ég les ekki í Orði Guðs vegna þess að ég hef ekki staldrað við, að ég tek eftir dálitlu — ég er í slæmu skapi.

Þetta er engin tilviljun. Við vorum sköpuð til þess að iðja og biðja, í takt við guðlegt eðli. Þegar við gerum ekkert annað en að vinna, keyrum við líkama okkar út án þess að gefa gaum að þeirri lofgjörð sem við þörfnumst til þess að hlaða rafhlöðurnar á nýjan leik.

Ef við eigum að njóta þess lífs sem Guð bjó til handa okkur, verðum við aftur að leiða hugann að því sem okkur er bráðnauðsynlegt, svo að við getum dafnað. Við þurfum að sneiða framhjá því sem reynir að hraða för okkar, róa okkur niður og taka fram Biblíurnar okkar. Árangurinn verður sá, að við sjáum heiminn í nýju ljósi, lífið fær lit þeirrar vonar og bjartsýni sem við þörfnumst til þess að horfa út í daginn.

Er ég setti það í forgang að lesa daglega í Biblíunni minni að morgni, fannst mér lífsviðhorfið breytast til batnaðar.

Hér má sjá hvernig daglegur biblíulestur getur breytt lífi þínu á fjóra vegu:

1.    Þú færð nýja innsýn í vandamál þín.

Biblíusögurnar eru tímalausar vegna þess að þær fást við alhliða, mannlega þætti á borð við streitu, kvíða, ótta, kærleika og von. Óhlýðni Ísraelsmannanna í Gamla testamentinu getur til dæmis hjálpað þér að sjá axarsköftin í lífi þínu — og miskunn Guðs og náð gagnvart þér — í nýju ljósi.

Hvað svo sem þú ert að berjast við, leyfðu þá hinum kraftmiklu sögum Biblíunnar að varpa skýrara ljósi á það sem þú ert að ganga í gegnum.

2.    Þú munt sjá Guð í nýju ljósi.

Það er erfitt að taka eftir Guði í dagsins önn þegar þú hefur gleymt því hvernig hann starfar. Með því að lesa í Biblíunni á hverjum degi, getur þú varðveitt eðli Guðs og fundið hvernig hann starfar í fremstu víglínu huga þíns svo að þú munt ætíð gefa því gaum hvernig hann er að störfum í þínu eigin lífi.

3.    Þú munt beina athyglinni á nýjan leik að því sem er mikilvægt.

Þegar þú ert önnum kafin(n), beinir þú huganum að sjálfri/sjálfum þér, því sem þú þarft að gera og líðan þinni. En lestur í Biblíunni víkkar út sjóndeildarhring þinn. Hann beinir sjónum þínum aftur að því sem er mikilvægt, eins og að gefa Guði gæðastund með þér fyrst og auðsýna fjölskyldu þinni, vinum og nágrönnum kærleika.

Ef þér finnst hugur þinn vera fastur í sjálfhverfu, leyfðu þá orðum Biblíunnar að beina þér að heildarsýn Guðs — allir skipta máli í dagsins önn.

4.    Þú velur betri kosti.

Í Biblíunni er okkur kennt að „af gnægð hjartans mælir munnur hans“ (Lk 6.45). Án þess jafnvel að verða þess vör, getum við rifjað upp ýmislegt rangt í hjörtum okkar, byggt á því sem við eyðum tíma í að hugsa um og innbyrða í fjölmiðlum. Í tímans rás geta þessi skaðlegu atriði umbreytt viðhorfum okkar til hins verra og orðið til þess að við framkvæmum eða segjum ýmislegt sem er ekki Guði þóknanlegt eða kærleiksríkt. Þess vegna felst köllun okkar í því að vera á varðbergi gagnvart slíku. Þú þarft því viljandi að safna því sem heilnæmt er í hjarta þér.

Með því að lesa Biblíuna getum við verið viss um að við höldum í heilbrigða og lífgandi sál sem flæðir yfir á öllum sviðum lífsins.

Láttu ekki ótta þinn um að þú sért að missa af gálgafresti eða að þú sért að verða of seinn til vinnu aftra þér frá því að mynda fyrst dagleg tengsl við Guð. Slakaðu á og lestu Biblíuna á hverjum degi og gáðu að því, hvernig líf þitt tekur breytingum.

10 „öndunarbænir“

Þegar þú ert að starfi í kirkjunni þinni eða þegar þú krýpur í bæn til Guðs, getur þú farið með þessar stuttu, einföldu bænir í einni öndun.

1)    „Drottinn, miskunna þú.“

Eyðimerkurfeðurnir, kristnir munkar í Egyptalandi á þriðju og fjórðu öld, fóru oft með þá bæn sem margir þekkja sem „Kyrie eleison“ („Drottinn, miskunna þú“ á grísku). Hún er einnig nefnd „Jesúbænin“ þegar sagt er: „Drottinn Jesús Kristur, Sonur Guðs, vertu mér syndugum líknsamur.“ Hún á rót sína að rekja til Slm 123.3, Lúk 18.13 og Lúk 18.38).
http://guideposts.org/paths-to-fulfillment-positive-living/4-ways-daily-bible-reading-will-change-your-life?utm_source=FB&utm_medium=GP&utm_campaign=NSamudre03.22.15
Gangi þér vel!