Nachos og biblíutextinn.
-200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.

Nú er fermingarfræðslan senn á enda hér í Langholtskirkju.  Enn eitt sinnið sitjum við fræðararnir eftir reynslunni ríkari og hugleiðum hvernig hafi til tekist.  Hafa krakkarnir fengið tækifæri til að takast á við þemu fræðslunnar út frá sínum eigin forsendum ? Hafa þau velt fyrir sér eigin nálgun á texta Biblíunnar ?  Eigin nálgun á siðferðisklemmurnar, sem blasa við okkur í daglegum lífi og máti úrlausnirnar við kærleiksboðskapinn sem er eina algilda lögmál trúarinnar.
Umræðurnar hafa oft verið líflegar og skoðanir skiptar.  Við tókumst á við spurningar eins og :
Voru Adam og Eva til sem raunverulegar manneskjur ?
Ef þau voru ekki til er Biblían þá að segja ósatt ?
Er hægt að fyrirgefa allt ?
Er það sama að elska eða vera ástfanginn ?
Hvernig bregst þú við þegar vinur þinn eða vinkona segir þér frá samkynheigð sinni ?
Allt spurningar sem varða mennsku okkar, siðferði og vellíðan.
Krakkarnir voru ávallt snögg að setja á sig gleraugu kærleikans og sjá með þeim leiðir sem báru í sér mannvirðingu og lausnir.
Það sem reyndist hins vegar oft flókð var að lesa hina öldnu texta Biblíunnar, hafandi í huga um hversu ólík rit er að ræða innbyrðis, og þá ekki síður að heyra samhljóminn í eigin lífi unglings í gegnum oft á tíðum framandi tungutak.
Við þurftum því að minna okkur á aftur og aftur að Biblían er fjársjóður sem við getum speglað okkur í en við þurfum um leið að líta á okkur sjálf sem ritendur framhaldssögunnar með eigin lífi.
Uppskerudagur fræðslunnar rann svo upp 1. mars en þá var Æskulýðsdagurinn og fermingarbörnin sáu um alla messuþjónustu.  Hápunktur messunnar var að endurlifa kvöldmáltíðarfrásögnina, þar sem Jesús situr með lærisveinunum og þeir borða saman í síðasta sinn.  Sunnudagslærið kom í hug.  Eða kósíkvöld heima með kók og snakk.  Stundir þar sem við treystum böndin, ræktum kærleikann og öxlum ábyrgð á að búa til samfélag hvert við annað.  Niðurstaðan varð vínber og Nachos enda rímaði það vel við samfélagsstundir unglinga.  Hver er svo tilgangurinn með svona æfingum ?  Er ekki nóg að þau eigi Biblíu á náttborðinu ?  Tilgangurinn er að textinn fái að lifa og tala, svo trúarlífið geti vaxið og dafnað.  Hlutverki okkar er að ljúka þennan veturinn en Guð valhoppar  með þessum ormum út í lífið og textar Biblíunnar fá að þroskast með þeim.

Sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir