Hugvísindaþing 2015 er helgað ljósi í tilefni af alþjóðlegu ári ljóssins. Á þinginu verður boðið upp á málstofur og fyrirlestra sem tengjast ljósi á ýmsan hátt en sem fyrr er þingið vettvangur fyrir öll svið hugvísinda og því verða málstofur og fyrirlestrar um allt milli himins og jarðar.
Biblíufélagið vill vekja athygli á tveimur málstofum sem fjalla um áhrifasögu Biblíunnar.

Áhrifasaga Biblíunnar
Fjallað verður um áhrif, notkun og túlkun Biblíunnar á ýmsum sviðum bókmennta og lista, svo sem ljóðlistar, tónlistar og kvikmynda. Málstofan verður tengd 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags.
Úr sögu biblíuþýðinga og biblíuskilnings
Í ár eru liðin 200 ár frá stofnun Hins íslenska biblíufélags, elsta starfandi félags í landinu. Af því tilefni verður í þessari málstofu fjallað um ýmsa þætti úr langri sögu íslenskra biblíuþýðinga. Þar koma við sögu tveir af elstu þýðendunum Oddur Gottskálksson og Guðrbandur Þorláksson sem og skoski trúboðinn Ebenezer Henerson sem beitti sér fyrir stofnun Hins íslenska biblíufélags 1815 og loks er fjallað um biblíuskilnings Danas Grundtvigs sem hafði umtalsverð áhrif á íslenska menntamenn.
Föstudagur 13. mars 2015
Fyrirlesarar og erindi:

•    Einar Sigurbjörnsson, prófessor emerítus í guðfræði: Ritningarskilningur Grundtvigs
•    Guðrún Kvaran, prófessor emeríta og fyrrverandi stofustjóri hjá Árnastofnun: Líkt og ólíkt í Nýja testamentunum 1540 og 1584
•    Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju: Ebenezer Henderson og stofnun Hins íslenska biblíufélags
Málstofustjóri: Væntanlegur
Útdrættir:
Einar Sigurbjörnsson, prófessor emerítus í guðfræði: Ritningarskilningur Grundtvigs
Sem ungur guðfræðikandidat og prestur tók Grundtvig upp baráttu gegn rationalismanum sem þá var ríkjandi stefna í kirkju- og menningarmálum í Danmörku. Að hans mati var Heilög ritning eini mælikvarði kirkjunnar á trú og breytni. Í deilum sínum við prófessor Clausen þróaði hann all sérstæðan ritningarskilning sem hér verður fjallað um.
Guðrún Kvaran, prófessor emeríta og fyrrverandi stofustjóri hjá Árnastofnun: Líkt og ólíkt í Nýja testamentunum 1540 og 1584
Eins og mörgum er kunnugt notfærði Guðbrandur Þorláksson biskup sér þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu við útgáfu Biblíunnar 1584. Nýja testamentið var gefið út í Hróarskeldu 1540 og var fyrsta íslenska ritið sem komst á prent. Sumir hafa haldið því fram að breytingar Guðbrands hafi verið til bóta, aðrir að þær hafi verið óverulegar. Fæstar umsagnirnar styðjast við nákvæman samanburð.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um endurskoðun Guðbrands og í hverju breytingar hans voru fólgnar. Stuðst verður við rækilegan samanburð á báðum Nýja testamentunum. Í fyrri hlutanum verða sýnd valin dæmi um breytingar sem snúa að beygingum og orðmyndum en í síðari hlutanum verður reynt að sýna fram á fyrirmyndir Odds og Guðbrands og að Guðbrandur hafi stuðst við danska þýðingu á Biblíunni sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1550.
Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju: Ebenezer Henderson og stofnun Hins íslenska biblíufélags
Skotinn Ebebezer Henderson átti frumkvæði að því að Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 10. júlí 1815. Í erindinu verður rætt um aðdraganda þess að hann kom til Íslands, ferðir hans um landið og stofnun Biblíufélagsins.

Laugardagur  14. mars 2015
Fyrirlesarar og erindi:
•    Gunnlaugur A. Jónsson prófessor: „Eins og hindin …“. Af áhrifasögu Slm 42-43 í ýmsum listgreinum
•    Haraldur Hreinsson doktorsnemi: Örvænting og upprisulíkami í The Walking Dead
•    Rúnar Þorsteinsson lektor: „666. The Number of the Beast“. Iron Maiden og Biblían
Málstofustjóri: Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags

Útdrættir:
Gunnlaugur A. Jónsson prófessor: „Eins og hindin …“. Af áhrifasögu Slm 42-43 í ýmsum listgreinum
Davíðssálmar 42-43 eru yfirleitt taldir vera einn sálmur þrátt fyrir tvö númer og þessi sálmur þykir einhver sá persónulegasti meðal sálma Saltarans. Í þessu erindi hvílir áherslan þó ekki á hefðbundinni ritskýringu sálmsins eða upprunalegri notkun hans meðal hinna fornu Hebrea heldur verður sjónum fremur beint að notkun hans og áhrifum í síðari tíma íslenskri kveðskaparhefð. Athyglinni verður einkum beint að kveðskap eftir þá Hallgrím Pétursson og Einar Benediktsson, kveðskap sem sýnir það mikinn skyldleika við sálm Saltarans að því verður haldið fram að þeir hafi haft sálm Saltarans í huga eða sem fyrirmynd er þeir ortu.
Haraldur Hreinsson doktorsnemi: Örvænting og upprisulíkami í The Walking Dead
Paul Tillich, kunnasti menningarguðfræðingur síðustu aldar, hefur í seinni tíð verið gagnrýndur fyrir að horfa framhjá þeim trúar- og tilvistarspurningum sem fram kunna að koma á því sviði menningarinnar sem stundum hefur verið kallað dægurmenning (e. popculture). Í þessu erindi verður tekið mið af þeirri gagnrýni og fjallað um eina vinsælustu sjónvarpsþáttaröð vestrænnar sjónvarpsmenningar, The Walking Dead, og því haldið fram að þar séu settar fram knýjandi spurningar um merkingu og tilgang í föllnum heimi. Þungamiðja erindisins er þess vegna greining í anda Tillich á trúar- og tilvistarspurningum nokkurra valinna þátta. Auk þess verður leitast við að staðsetja þáttaröðina hugmyndasögulega með því að rifja upp nokkrar mikilvægar hugmyndir kristinnar guðfræði um upprisu dauðra sem og beina sjónum að þeim biblíuvísunum og –stefjum sem skjóta víða upp kollinum í The Walking Dead.
Rúnar Þorsteinsson lektor: „666. The Number of the Beast“. Iron Maiden og Biblían
Breska þungarokkshljómsveitin Iron Maiden kemur víða við í textagerð sinni og vísar m.a. til texta Biblíunnar. Þekktasta dæmið er notkun hljómsveitarinnar á frásögn Opinberunarbókarinnar um „tölu dýrsins“, 666. Í þessum fyrirlestri verður farið yfir notkun Iron Maiden á texta Opinberunarbókarinnar sem og sögu hljómsveitarinnar í því samhengi.

Sjá nánar á http://http://hugvis.hi.is/hugvisindathing og á http://hugvis.hi.is/ur_sogu_bibliuthydinga_og_bibliuskilnings og http://hugvis.hi.is/ahrifasaga_bibliunnar