Erindi flutt 15. janúar í Seltjarnarneskirkju
í tilefni af útgáfu bókarinnar Áhrifasaga Saltarans eftir Gunnlaug A. Jónsson prófessor

Það er stundum sagt að upphaf heimspekinnar og fræðimennskunnar sé undrun. Fræðimaðurinn spyr í undrun sinni og jafnvel aðdáun: „Hvað er þetta?“ Þegar nýútkomin bók Gunnlaugs er skoðuð þá kemur bersýnilega í ljós að Gunnlaugur hefur spurt sig einmitt þessarar spurningar varðandi sálmana, í undrun og aðdáun. Hann hefur spurt sig: „Hvað er þetta eiginlega? Hvað er þetta eiginlega sem virkar svona sterkt á mig og talar svona til mín?“
Við sem þekkjum Gunnlaug vitum reyndar að hann var fljótur að hætta að spyrja spurningarinnar „hvað er þetta“ og byrjaði þess í stað að spyrja sig: „Hvar er það?“ Og „hvers vegna sé ég það út um allt?“ Hvers vegna eru þessir gömlu sálmar að birtast mér í öllu sem ég sé? Hvers vegna get ég ekki litið Bláfjöllin án þess þess að sálmur 121 komi mér í huga, „ég hef augu mín til fjallanna“? Hvers vegna get ég ekki stytt mér leið í gegnum undirgöng án þess að sálmur 23 verði mér ljóslifandi? Hvers vegna get ég ekki fengið mér Gatorade eftir fjallgöngu án þess að vera minntur á sálm 42, um hindina sem þráir vatnslindir?  Hvers vegna mæta síðan þessir gömlu sálmar mér í listaverkum, kvikmyndum, popplögum og kvöldfréttunum? En Gunnlaugur fór ekki til sálfræðings til að komast að því af hverju hann sér Davíðssálmana alls staðar. Hann ákvað þess í stað að skrifa bók um málið. Bók sem eldhúsvigt sr. Hreins S. Hákonarsonar hefur vigtað upp á  heil 2 kíló!
Við ættum að mínu mati öll að gleðjast yfir því að Gunnlaugur skrifaði þessa bók í stað þess að leita sér hjálpar við ofvirkri sálmasjón sinni.  Það kemur nefnilega í ljós að bókin er mikilvæg áminning inn í tíðaranda sem hefur um of tapað þeirri gerð af sjón sem Gunnlaugur hefur nóg af.
Sá misskilningur hefur nefnilega rutt sér til rúms í vesturheimi nútímans að líf okkar sé aðgreint og sundurhlutað. Guð er eitt og okkar veraldlegi veruleiki annað. Kirkja er eitt og vinnustaður annað. Sálmur er eitt og popplag er annað. Þegar sá misskilningur ryður sér til rúms þá fær andlegt og trúarlegt líf okkar sífellt minni skika, og daglegur veruleiki okkar getur tapað töfrum sínum og orðið þurr. Það segir sig auðvitað sjálft að slíkar takmarkanir og aðgreiningar er ekki að finna hjá Guðs heilögu nærveru sem er allt í öllu. Og slíkar aðgreiningar eru ekki heldur sönn lýsing á manneskjunni sem er, þrátt fyrir allt, ein og heil, þó vissulega sé hún fjölvídda.
Ef allt væri rétt þá gæti þessi fjölvídda manneskja gert það að tilbeiðslu sinni að moka flórinn eða að fá sér fyrsta kaffibolla morgunsins og ef allt væri rétt þá gæti kannski þessi fjölvídda manneskja fundið Davíðssálma bæði í kvikmynd kvöldsins og í hádegisfréttatímanum
Bók Gunnlaugs hittir þannig í mark vegna þess að hún getur opnað okkur þessa sýn sem við þurfum meira af. Hún getur leitt okkur inn í þann heim þar sem  popplög eru sálmar og sálmar popplög, þar sem kvikmyndir eru túlkun á trúaratriðum og trúaratriði efniviður í frásögur kvikmyndanna.
Bók Gunnlaugs getur þannig aldrei orðið tæmandi um efni sitt, þótt tvö kíló sé. Enda eru sálmarnir næsta ótæmandi, og poppkúltúrinn síkvikur, og óendanleg fjölbreytni í því hvernig hið trúarlega mætir okkur. Bók Gunnlaugs, Áhrifasaga Saltarans, er þannig innlegg til þess að opna augu okkar fyrir því að víddir lífs okkar eru tengdar, hið trúarlega og hið veraldlega, hið hátíðlega og hið hversdagslega.
En þá má spyrja hvort bók Gunnlaugs sé nóg til að leiðrétta sjón nútímamannsins? Svarið hlítur að vera: „Ólíklega.“ Við þurfum sennilega öll að hjálpast að og byrja á okkar eigin augum til að sú breyting megi verða. En bók Gunnlaugs nær að mæta ákveðinni kröfu nútímaíslendingsins og það er góð og mikilvæg byrjun. Þetta er sú krafa nútímannsins um að allt sé skemmtilegt. Vissulega umdeild krafa. En Gunnlaugur ætlar sér greinilega ekki að skrifa bók sem lætur fólk fá samviskubit yfir að vera ekki nógu duglegt að lesa Biblíuna sína. Þess í stað þá fer hann með umfjöllun sína um sálma Saltarans þangað sem partýið er, inn í dægurmenninguna. Eins og Mary Poppins sagði „ just a spoonful of sugar helps the medicine go down.“ Sálmarnir fá þannig vissulega fræðilega umfjöllun. Það er gerð skýr grein fyrir aldri og tegund hvers sálmar sem fjallað er um og staðsetningu hans innan sálmasafnsins sem og þýðingarsögu. Það er gerð innihaldslýsing og greining og ávallt skoðað áhugavert brot af áhrifasögu fyrri alda. Síðan fáum við að sjá hvernig viðkomandi sálmur fléttar sér leið inn í  samtímamenninguna. Og oft þá kemur þessi flétta líka skemmtilega á óvart.
Eða hvað eiga t.d. leikkonan Kate Winslet, íslenska verðlauna-skáldið Sjón og gyðinglegi guðfræðingurinn Martin Buber sameiginlegt? Svarið: Sálm 139!
Hvað eiga hinn enski Thomas More,  Jesse Jackson og Bill Clinton sameiginlegt? Svarið er: Sálm 51
Hvað á síðan Reggae-skotna kvikmyndin „the harder they come“, Eiríkur Örn Norðdahl og Valdimar Briem sameiginlegt? Svarið er: Sálm 137
Ekki misskilja mig. Ég er ekki að eggja Gunnlaug til að búa til sína eigin útgáfu af spurningaspilinu popppunkti byggða á efni bókarinnar. En eins og heyra má þá gæti það vissulega orðið mjög fjörugt og óvænt spil.
Að lokum vil ég hinsvegar taka undir með Gunnlaugi að ef textar ritningarinnar eiga að vera sílifandi þá verðum við að skoða þá þannig. Við verðum að spyrja í aðdáunarfullri undrun, Hvað er þetta, og af hverju er það alls staðar? En fyrst þá verðum við að opna augu okkar fyrir því að sjá Davíðssálmana og umfjöllunarefni þeirra sem víðast. Gunnlaugur hefur með bókinni, Áhrifasaga Saltarans, lagt vel í púkkið til að svo megi verða. Hann talar inn þörf samtímans fyrir að sjá Guð  og viðfangsefni trúarinnar víðar og hann mætir kröfu samtímans um það að það sé gert skemmtilega.
Takk fyrir mig og til hamingju með bókina Gunnlaugur!

Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur