Á sunnudaginn næsta er fyrsti sunnudagur í aðventu. Aðventan þýðir koma og bendir á komu Jesú – hvernig Guð sjálfur nálgaðist okkur manneskjurnar á einstakan hátt í syni sínum Jesú Kristi. Aðventukransinn er eitt af augljósustu merkjum þess að aðventan er gengin í garð. Logandi kertin merkja komu Krists, á komu ljóssins, sem aldrei slokknar. Ljósið er nauðsynlegt fyrir okkur.  Jesús sagði : ,,Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins”   Guð sköpunarinnar, Guð ljóssins og lífsins, hann birti okkur dýrð Guðs.
Lúkasarguðspjalli 4.16-21 segir frá því þegar Jesús las úr spádómsbók Jesaja:
“Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
Fyrsta kertið á aðventukransinum heitir spádómskertið og það ljós minnir á spádóma um komu frelsarans í heiminn. Spádómarnir lifðu, spádómar um vonina sem allir biðu eftir. Von um betra líf þegar frelsarinn kæmi í heiminn.  Sú von er öllum ætluð.

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum.  Í kringum þau ríkti þögn.  Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kerin tala saman.
Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: „Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!“ Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.
Annað kertið flökti og sagði: „Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.“ Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.
Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: „Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.“ Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.
Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: „Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.“
Þá svaraði fjórða kertið: „Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von.“ Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: „Nú geta jólin komið í alvöru.“

(höf.óþekktur)

Notum aðventuna til að undirbúa komu jólanna. Tökum á móti ljósinu í líf okkar og leyfum því að lýsa upp veru okkar.  Gleðjumst yfir ljósinu sem skín í myrkrinu og lýsir okkur á lífsgöngunni.