Sóknarpresturinn og guðfræðingurinn Katherine Lilleør er á meðal þeirra fyrstu sem hafa rannsakað hvernig kristindómurinn hefur haft áhrif á ævintýri H.C. Andersen. Úr þessu urðu bæði doktorsritgerð í heimspeki og bók — og hér eru einnig fjögur glögg sjónarhorn á H.C. Andersen og kristindóminn í þáttaröð Hins danska biblíufélags, „Vissir þú“.

Hvaða ævintýri?

Katherine Lilleør mælir sérstaklega með þessum ævintýrum, ef fólk vill finna kristnar taugar H.C. Andersen:

•    Á efsta degi
•    Anna Lísbet
•    Stúlkan, sem steig á brauðið
•    Fegursta rós í heimi
•    Litla stúlkan með eldspýturnar
•    Snædrottningin
•   Saga frá sandhólnum

Um kristni H.C. Andersen

„Sá skilningur, sem ævintýrin tjá guðfræðilega, er borinn uppi af mikilli og sjálfstæðri hugsun um evangelísk-lútherska kristni. Í ævintýrunum þarf H.C. Andersen ekki að nefna alla trúfræðina. Hann þarf ekki að nefna Jesú á nafn til þess að boða Jesú. Í skáldsögum sínum vill hann að kristin trú sín verði algjörlega sönn, og þess vegna getur verið að þær séu svolítið þungar, en í ævintýrunum öðlast þær vængi og fljúga svo frjálst og létt. Sá lífsskilningur, sem lagður er í ævintýrin, er sjálfstæð íhugun um það, hvað í því felst að vera kristinn maður í nútímanum. Þar ber að hafa hugfast, að efinn er meiri en trúin í mannshuganum. Í frásögnum sínum byrjar H.C. Andersen alltaf í myrkrinu og kemur fram í dagsljósið.“

Um skynsemi og tilfinningu

„Við lok Snædrottningarinnar les amma skírnarorðin: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Það bendir greinilega til þess, að við hneigjumst til kristins tilvistarskilnings. Á upplýsingartímanum hafði áherslan verið lögð á hið rökræna og í ævintýrum H.C. Andersen gerum við upp þann kostnað sem tilfinningarnar og hjartað krefjast. Rómantíska stefnan, sem H.C. Andersen er hluti af, uppgötvar hjartalagið á nýjan leik, og hann lýsir því í Snædrottningunni, hvernig Kay er bjargað undan hinum ísköldu greipum skilnings drottningarinnar. Skilningurinn getur ekki fært mann nálægt eilífðinni og getur heldur ekki hent reiður á eilífðinni.  Boðun kristinnar trúar og hinn kristni boðskapur er æðri hvers konar skilningi, en talar til kærleikans og ljóssins, eins og í ævintýrinu, þegar Gerða fer til enda veraldar í mynd Krists. Sagan af Snædrottningunni er stútfull af kristnum tilvísunum, sem sóttar eru til Biblíunnar, en í lokin byggist hún á hinni kristnu von, að handan dauðans sé ljós að finna.“

Um dauða og huggun

„H.C. Andersen hafði mjög snemma auga fyrir því, hversu mikið maðurinn getur séð af því, sem hulið er. Í ljóðinu Hið deyjandi barn sýnir hann, hvernig barnið sér, að það er ekki til neins að gráta. Það skírskotar til frásögu Biblíunnar á því, hvernig Jesús segir við Maríu Magdalenu fyrir utan gröfina: „Kona, hví grætur þú?“ Barnið hefur nú þegar stigið inn í dauðann, og þaðan getur það séð, að sorg móðurinnar er óþörf. Í ævintýrinu Saga um móður segir hinn ungi Hans Christian, að móðirin og við öll hin getum einmitt ekki séð það sem á sér stað handan dauðans.“

Um gleði og hreint hjarta

„Í bókmenntasögunni höfum við gert H.C. Andersen rómantískari og gert hann að talsmanni hins barnslega sakleysis, en ég tel ekki alveg svo vera. Í huga H.C. Andersen er lögð rík áhersla á það, að hið barnslega hugarfar tjáir, að maður þiggur með hreinu hjarta og gleðst yfir því sem maður fær. Það er grundvallarhugsunin með kristinni skírn; að við þiggjum aðeins og getum ekkert gefið. Þess vegna er H.C. Andersen upptekinn af því barnslega og myndræna, sem barnið hefur til að bera: Hina óskilyrtu gleði yfir því að þiggja og vera til.“

Katherine Lilleør skrifaði doktorsritgerð sína; Hinn skæri glampi ævintýranna — um hin kristnu grunnatriði í ritverkum H.C. Andersen.

Ritgerðin varð síðar að auðlesinni bók, Frá hjarta til hjarta. Ný túlkun á ævintýrum H.C. Andersen.

Sjá nánar á: http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2013/vidstedu_hca