Kristsdagur var haldinn í Hörpu laugardaginn 27. september. Hugmyndin að Kristsdegi vaknaði þegar nokkrum fulltrúum bænahóps sem hittist reglulega í Friðrikskapellu var boðið á Kristsdag í Sviss. Markmið undirbúningshópsins var að fá sem flestar kristnar kirkjudeildir til að taka þátt víðast af landinu og sameinast í bæn fyrir landi og þjóð. Hátíðin hófst með skemmtilegu spili frá skólahljómsveit Austurbæjar en herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands fluttu ávörp.  Aðaldagskráin var haldin í Eldborgarsalnum en þar komu fram ýmsir kórar, t.d. Karlakór KFUM, kór Lindakirkju, unglingakór Lindakirkju, Gospelkór Fíladelfíu, Gradualekór Langholtskirkju og gospelkór Jóns Vídalín. Fjöldi einsöngvara söng með kórunum og fulltrúar kirkjudeilda og kristinna safnaða lásu ritningarvers og leiddu bænir fyrir landi og þjóð.
Fulltrúar Biblíufélagsins kynntu starf félagsins fyrir gestum og gangandi.