Í sumar starfa ég í sumarbúðum KFUM og KFUK á Hólavatni. Þar kemur fjöldi barna til að taka þátt í því góða starfi sem þar er unnið.

 Á hverjum morgni er fáninn hylltur, börnin fá að fræðast um Biblíuna og alla daga er boðið upp á skemmtilega dagskrá. Það er hlegið mikið, kvöldvökur, íþróttir og útivera. Þar er sungið mikið og börnin njóta sín og blómstra. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í slíku starfi og eftirvænting barnanna hefur smitandi áhrif á leiðtoga staðarins. Sólin skín á Hólavatni hvernig sem viðrar, því þar er nærvera Guðs alls staðar. Í bréfi Páls til Kólossumanna standa þessi orð:

,,Hvað sem þér gjörið þá vinnið af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn“.

Þetta ritningarvers hefur gefið mér mikið í  starfi mínu sem leiðtogi í sumarbúðum. Í öllu lífi mínu má ég leggja mig fram og helga Drottni verk mín. Þjónusta mín á að vera þjónusta við Guð og ég á að bera honum vitni í orðum mínum og verkum. Í starfi mínu með börnum skiptir þetta mjög miklu máli. Að koma fram við börn af virðingu og í kærleika, leggja sig fram um að hvert og eitt barn hafi gaman í starfinu og fari ánægt heim. Ég vil lifa þannig, að leggja mig fram um að vinna að heilum hug, í dyggri þjónustu, keppa eftir því af lífi og sál og vinna þannig eins og Drottinn eigi í hlut en ekki menn.

Hreinn Pálsson, nemi,

starfar í sumarbúðum KFUM og KFUK

Hólavatni