Tojolabal er samfélag frumbyggja  í suðurhluta Mexíkó sem tilheyrir Mayan- hópi. Hópurinn samanstendur af 40.000 manns og þeir búa nálægt borginni Las Margaritas. Þeir tala sitt eigið tungumál.

Í  Tojolabal samfélagi í Mexíkó safnaðist fólk saman til hátíðar til að fagna fyrstu þýðingu af sögunum um Rut og Ester á þeirra eigin tungumáli. Fólk mætti til útgáfuhátíðarinnar í þjóðbúningum eða í sínum fínustu fötum. Það var beðið og þakkað fyrir nýju þýðinguna. Það sló dauðaþögn á hópinn þegar lesið var upphátt úr nýju þýðingunni. Fólkið var svo ánægt að fá þessar Biblíusögur á eigið tungumál að margir hófu strax að lesa nýju þýðinguna. Á árinu 2014 mun Nýja testamentið koma út á þeirra tungumáli en unnið er áfram að þýðingu Gamla testamentisins. Sameinuðu Biblíufélögin styðja við þetta útgáfustarf.