Þau hörmulegu tíðindi gerðust á laugardaginn 6. október að yfirmanni verslunar Biblíufélagsins í Palestínu sem er í Gaza var rænt og hann myrtur.

Rami Ayyad var numinn á brott eftir lokun verslunarinnar um kl. 16:30. Fyrstu fréttir bárust fjölskyldu hans þegar hann hringdi sjálfur í þau úr farsíma sínum um kl. 18. Hann sagði að sér hefði verið rænt af hópi fólks en hann mund koma heim síðar. Lík hans fannst snemma morguns daginn eftir ekki langt frá versluninni. Hann hafði verið skotinn og stunginn.

Þessi skelfilegi atburður er gríðarlegt áfall fyrir alla sem vinna á vettvangi biblíufélagshreyfingarinnar út um allan heim.

Forseti Sameinuðu Biblíufélagana, Miller Milloy, hefur sent bréf til allra biblíufélaga og greint frá þessum voðalegu tíðindum. Hann biður alla um að biðja fyrir eiginkonu hans, Pauline, og tveimur ungum börnum þeirra. Pauline gengur með þriðja barn þeirra hjóna undir belti. Og minnumst móður Ramis, Anisa, sem syrgir nú son sinn, og samstarfsmannanna í Gaza sem hafa misst félaga sinn og vin.

Labib Madanat, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Palestínu, lýsir Rami sem einstaklega hlýjum manni, sem alltaf hafi verið brosandi, tilbúinn að þjóna öllum sem komu í verslunina.“ „Hann var reiðubúinn að lifa í samræmi við boðskap fagnaðarerindisins í Gaza og hann vakti von hjá mörgum.

Rami var jarðsettur seinnipartinn þann sama dag, sunnudag.

Enn hefur engin hópur viðurkennt ábyrgð á þessum atburði. Svo virðist sem Rami hafi tekið eftir því daginn áður að bíll sem hafði engin númeraspjöld hafi fylgt honum eftir.

Biblíufélaginu í Gaza höfðu borist hótanir áður og í apríl á þessu ári varð verslun þess fyrir sprengjuárás án nokkurrar viðvörunar sem eyðilagði alla innanstokksmuni.

Miller endar bréf sitt með eftirfarandi orðum: Höldum öll áfram að biðja að boðskapur fagnaðarerindisins heyrist inn í heim tortryggni, ofbeldis og haturs.

Biblíufélagið á Íslandi tekur undir ákallið um að biblíuvinir á Íslandi biðji fyrir ekkjunni, Pauline, og börnunum þeirra, móður hans og samstarfsmönnum. Þau þurfa öll á stuðningi að halda, núna og næstu mánuði. Máttur bænarinnar á sér engin landamæri og Guð heyrir og hjálpar.