Um allan heim vinna biblíufélög að útbreiðslu Guðs orðs og vekja með fólki áhuga á frásögnum Biblíunnar. Til þess að það sé mögulegt verða leiðbeinendur og kennarar, sem kunna til verka, að geta aðstoðað fólk við að skilja og gerast handgengið hinni miklu bók. Með vandaðri uppfræðslu minnka líkurnar á því að fordómar fái þrifist og að texta Biblíunnar séu notaðir í misjöfnum tilgangi.

Í afríkuríkinu Gabon hefur Biblíufélagið þar í landi hrundið af stað viðmiklu verkefni til að fræða og þjálfa kennara til þess að sinna uppfræðslu í sunnudagaskólum. Thierry MAbiala, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Gabon segir að „markmið verkefnisins er að auka gæði biblíufræðslu sem kennarar sinna í sunnudagaskólum, gera þá handgengna góðu kennsluefni og að hjálpa börnum að láta boðskap Biblíunnar hafa áhrif á sitt daglega líf“.

Meðal þess sem Biblíufélagið í Gabon hefur staðið fyrir er útgáfa á vinnubók fyrir börn þar sem unnið er með biblíusögur. Vinnubókin hefur orðið mikið aðdráttarafl og þyrpast nú börnin í sunnudagaskólann til þess að fræðast um Guð og trúna á hann.

Hið íslenska biblíufélag tekur þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi Sameinuðu biblíufélaganna og vill nú á vordögum beina stuðningi sínum að því þarfa verkefni sem nú er unnið að meðal unga fólksins í Gabon.

Félagið snýr sér nú sem fyrr til félaga sinna og annarra styrktaraðila með ósk um stuðning við þetta þarfa verkefni

Framlag til söfnunarinnar greiðist inn á reikning 0101-26-3555 á kennitölu 620169-7739