Nú hefur félagsmönnum í Hinu íslenska biblíufélagi borist greiðsluseðill vegna innheimtu félagsgjalda árið 2010. Þetta er í fyrsta skiptið sem gjöldin eru innheimt með þessum hætti en með því er reynt að draga úr kostnaði og auka skilvirkni við innheimtuna. Þeir félagsmenn sem ekki láta skuldfæra félagsgjaldið á greiðslukort munu því fá seðilinn sendan heim og þá kemur hann einnig upp í heimabanka.

Félagsgjaldið er rekstri Biblíufélagsins mikilvægt og gerir því kleift að standa að útbreiðslu- og kynningarstarfi hér á landi. Án hinna fjölmörgu félagsmanna sem styðja við bakið á því, jafnt með greiðslu félagsgjaldsins og þátttöku í söfnunum félagsins, er víst að starfsemin væri mun veigaminni og þátttaka þess í alþjóðaverkefnum Sameinuðu biblíufélaganna nánast engin. Félagsgjaldið þetta árið var ákveðið kr. 1.500.