Job og fjölskylda hans. William Blake, 1821.

William Blake fæddist 1757 í London og bjó þar mestalla ævi sína. Hann er þekktur sem skáld, málari, dulhyggjumaður og leturgrafari sem sjálfur sá um myndskreytingar og prentun bóka sinna. Hann var misskilinn af samtíðarmönnum sínum og það var ekki fyrr en með síðari kynslóðum sem mikilvægi hans sem rithöfundar og listamanns var viðurkennt.

Eitt af síðustu verkum Blake var myndskreyting Jobsbókar sem hann lauk ári fyrir andlát sitt 1827. Í bókinni eru 21 mynd.


Saga Jobs hefst með lýsingu á velgengni og guðhræðslu aðalpersónunnar. Job var alveg dæmigert góðmenni og hann hafði það ámóta gott og hver annar sem talist gat velstæður. Hann átti sjö syni, þrjár dætur, 7000 sauði, 3000 úlfalda, 500 sameyki nauta, 500 asna og fjöldann allan af þjónum. Honum var svo umhugað um að  fjölskylda hans nyti ríkulega náðar Guðs að hann bauð fórnir fyrir  hönd barna sinna, ef vera skyldi að þau villtust af vegi dyggðarinnar. Samt er eins og heyra megi ógnvænlegan hljóm sleginn í lífi hans. Þrátt fyrir að honum hefði ekki á nokkurn hátt orðið á, tók allt að snúast á verri veg fyrir honum.

Sögusviðið breytist í réttarsal himnaríkis, þar sem Guð var umkringdur himneskum liðsmönnum sínum. Einn þeirra er Satan, holdi klæddur. (Satan þýðir hér „ákærandinn“ eða „saksóknarinn“; merkingin djöfullinn kom ekki fram fyrr en löngu síðar.)

„Drottinn spurði Satan: „Hvaðan kemur þú?“ Satan svaraði Drottni og sagði: „Ég hef verið á ferðalagi hingað og þangað um jörðina.““ (Job 1.7)