Eftirsjá, skömm og sorg eru greinileg í andlitsdráttum og líkamsstöðu Adams og Evu í þessari fresku, Útskúfun úr Edensgarði, eftir endurreisnarmeistarann sem þekktur er undir nafninu Masaccio ((1401-1428?).

Það fer tvennum sögum að því hvert skírnarnafn Masaccio var, önnur að það hafi verið Tommaso Cassai og hin það hafi verið Tommaso di Ser Giovanni di Mone. Nafnið Masaccio er glettin útlegging á Tommaso og þýðir sá „stóri“, „feiti“, „klunnalegi“ eða „subbulegi“ Tómas. Nafnið varð til til að aðgreina hann frá aðal samstarfsmanni sínum sem einnig hét Tommaso, en sá fékk viðurnefnið Masolino eða sá „litli“ eða „fínlegi“ Tómas.
Masaccio hefur verið kallaður fyrsti stóri málarinn á fyrri hluta endurreisnartímans. Í ferskum hans koma fram fyrstu merki mannhyggjustefnunnar eða húmanismans. Þrátt fyrir stuttan starfsaldur hafði hann afgerandi áhrif á aðra listamenn. Hann var einn af þeim fyrstu til að beita vísindalegu sjónarhorni í málverkum sínum og sá fyrsti sem beitti tækni eins og fjarvídd. Hann fjarlægðist hinn gotneska stíl og skreyti stíl og beitti myndmáli sem var nær hinu náttúrlega og raunsæa. Þannig hafði hann afgerandi áhrif á stefnu ítalskrar myndlistar endurreisnartímans. Sagt er að allir málararnir í Flórens hafi stúderað freskur hans af mikilli nákvæmni í þeim tilgangi „að læra aðferðirnar og reglurnar til að geta málað vel“.