Tákn um útlegð

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, þú býrð á meðal þverúðugra. Þeir hafa augu til að sjá með en sjá ekki og eyru til að heyra með en heyra ekki þar sem þeir eru þverúðugir. 3 En þú, mannssonur, um hábjartan dag í augsýn þeirra skaltu taka saman farangur þinn sem þú getur haft með þér í útlegð. Þú skalt halda að heiman til annars staðar að þeim ásjáandi. Ef til vill sjá þeir þá og skilja þó að þeir séu þverúðugir. 4 Þú skalt bera út farangur þinn eins og farangur útlaga um hábjartan dag, í augsýn þeirra. Sjálfur skaltu ganga út um kvöld að þeim ásjáandi eins og þeir sem fluttir eru í útlegð. 5 Rjúfðu skarð í vegginn í augsýn þeirra og farðu út um það. 6 Taktu farangurinn á öxlina fyrir augum þeirra og farðu með hann á brott í myrkrinu. Hyldu andlit þitt svo að þú sjáir ekki landið því að ég hef gert þig að tákni fyrir Ísraelsmenn.
7 Ég gerði eins og fyrir mig var lagt. Um hábjartan dag fór ég fór út með farangur minn eins og farangur útlaga. Um kvöldið rauf ég skarð í vegginn, hélt af stað í myrkri og tók farangurinn á öxlina í augsýn þeirra.
8 Orð Drottins kom til mín morguninn eftir: 9 Þú, mannssonur, hafa Ísraelsmenn, þessi þverúðuga þjóð, ekki spurt þig: „Hvað ert þú að gera?“ 10 Svaraðu þeim þannig: Svo segir Drottinn Guð: Þessi boðskapur á við um þjóðhöfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn sem í borginni eru. 11 Segðu: Ég er tákn fyrir ykkur. Það sem ég hef gert verður gert við þá: Þeir fara í útlegð, í fangavist. 12 Þjóðhöfðingi þeirra, sem er mitt á meðal þeirra, mun taka farangur sinn á öxl sér og fara með hann á brott í niðamyrkri. Veggurinn verður rofinn svo að um hann megi fara með farangurinn. Þjóðhöfðinginn mun hylja andlit sitt svo að hann sjái ekki landið. 13 Ég mun þenja net mitt út yfir hann og hann festist í veiðarfæri mínu. Ég mun flytja hann til Babýlonar, til lands Kaldea, en hann mun ekki sjá það og þar mun hann deyja. 14 Öllum sem kringum hann eru honum til hjálpar og öllum hersveitum hans mun ég tvístra í allar áttir og elta þá með brugðnum brandi. 15 Þegar ég tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifi þeim um löndin skulu þeir skilja að ég er Drottinn. 16 En ég mun láta örfáa þeirra komast undan sverðinu, hungursneyðinni og drepsóttinni svo að þeir geti skýrt þjóðunum, sem þeir fara til, frá öllum svívirðingum sínum. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.
17 Orð Drottins kom til mín:
18 Mannssonur, þú skalt eta brauð þitt skjálfandi og drekka vatn þitt titrandi og óttasleginn 19 og segja við íbúa landsins: Svo segir Drottinn Guð um íbúana í Jerúsalem í landi Ísraels: Þeir munu neyta brauðs síns óttaslegnir og drekka vatn sitt skelfingu lostnir því að land þeirra verður auðn, rúið öllu sökum ofbeldisins sem íbúarnir, allir sem einn, hafa framið. 20 Byggðar borgir verða lagðar í rúst og landið verður auðn. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.
21 Orð Drottins kom til mín:
22 Mannssonur, hvað merkir orðtakið sem þið hafið um land Ísraels: „Dagar líða og allar sýnir eru marklausar?“ 23 Segðu því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég mun láta þetta orðtak hljóðna svo að til þess verði ekki oftar vitnað í Ísrael. Segðu hins vegar við þá: „Þeir dagar nálgast að sérhver sýn rætist.“ 24 Því að hér eftir verða hvorki til tálsýnir né svikul spámæli í Ísrael. 25 En ég, Drottinn, mun tala og það sem ég segi kemur fram án tafar. Þegar um ykkar daga, þvermóðskufulla kynslóð, mun það sem ég boða rætast, segir Drottinn Guð.
26 Orð Drottins kom til mín:
27 Mannssonur, Ísraelsmenn segja: „Hann sér ókomna daga í sýn, hann boðar atburði í fjarlægri framtíð.“ 28 Segðu því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ekkert af því sem ég hef boðað mun dragast á langinn. Það sem ég segi verður, segir Drottinn Guð.