Tekinn höndum

47 Meðan Jesús var enn að tala kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungunum og höfðu þeir sverð og barefli. 48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: „Sá sem ég kyssi, það er hann. Takið hann höndum.“
49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: „Heill, rabbí!“ og kyssti hann.
50 Jesús sagði við hann: „Vinur, hví ertu hér?“
Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann fastan. 51 Einn þeirra sem með Jesú voru greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. 52 Jesús sagði við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla. 53 Hyggur þú að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? 54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast sem segja að þetta eigi svo að verða?“
55 Þá sagði Jesús við flokkinn: „Eruð þið að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi og þið tókuð mig ekki höndum. 56 En allt verður þetta til þess að ritningar spámannanna rætist.“
Þá yfirgáfu allir lærisveinarnir Jesú og flýðu.