Sagan um ungu stúlkuna sem sparaði í sex ár og gekk 40 kílómetra leið til þess að eignast Biblíu á sínu eigin tungumáli.

Fyrir mörgum árum bjó lítil stúlka ásamt móður sinni í litlu, gráu steinhúsi í velskri sveit. Heimili hennar var í grænum dal í skugga fjalls, þaðan sem stundum mátti sjá sjóinn í fjarska. Faðir hennar var vefari sem lagði mjög hart að sér til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða, en því miður lést hann þegar Mary var ung að árum.

„Mary! Mary!“ kallaði rödd úr fjarska.

„Ég kem, mamma…“ Mary Jones vissi til hvers var ætlast af níu ára stúlku. Án þess að mögla gerði hún skyldur sínar heima fyrir. Hún skúraði gólfin, gaf hæsnunum að éta, eldaði og aðstoðaði við að halda húsinu hreinu.

Á sunnudagsmorgnum klæddi Mary sig í sparifötin sín og gekk í litlu kapelluna í þorpinu, í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð. Fremst í kirkjunni opnaði presturinn stóra, svarta, leðurbundna bók. Er hann hóf lesturinn, heillaðist Mary af dásamlegu orðunum og geymdi þau í hjarta sér. Eftir guðsþjónustuna gekk hún varfærin upp að altarinu til þess að skoða þessa hrífandi bók. Tvö orð voru rituð með gylltu letri á kápu hennar. Mary gat sér þess til að þar stæði ,Heilög ritning’ þar sem hún hafði heyrt prestinn minnast á nafn bókarinnar. Orðin inni í bókinni höfðu undarleg áhrif á hana. „Hvernig getur nokkur maður botnað í þessum krúsidúllum?“ hugsaði hún. „Ó, hvað ég vildi að ég gæti lesið þessa bók sjálf, eða jafnvel eignast eina slíka!“

Svo var það sunnudagsmorgun nokkurn að presturinn tilkynnti að skólastarf hæfist í þorpinu. Mary varð spennt. „Nú get ég lært að lesa, og komist til botns í þessum skrýtnu táknum bókarinnar í kapellunni.“

Hr. Evans, sem var skólastjórinn, flutti ásamt eiginkonu sinni í bóndabæ skammt frá heimili Mary. Mary lagði sérstaklega hart að sér til þess að hún gæti farið heim til Evans-hjónanna og lært að lesa. Foreldrar hennar sáu hversu dugleg dóttir þeirra var að sinna bæði heimavinnu sinni í skólanum og starfsskyldunum heima fyrir.

Mánuðir liðu og árstíðaskipti urðu. Að því kom, að Mary var loks beðin um að lesa upp úr Biblíunni í kapellunni sunnudagsmorgun nokkurn. Hún var ekki mjög hávaxin, þannig að hún stóð uppi á sérstökum trékassa svo að hún gæti séð stafina glöggt. Nú voru krúsidúllurnar henni ekki lengur framandi. Hún var orðin fluglæs. Herra og frú Jones voru mjög stolt af dóttur sinni.

Eftir guðsþjónustuna flýtti Mary sér til móður sinnar. „Ég verð að eignast Biblíu, ég verð að eignast Biblíu,“ hrópaði hún. Móðir hennar lagði hönd sína blíðlega á öxl hennar. „En Mary, Biblíur eru dýrar, og við höfum ekki mikið á milli handanna.“

„Ég veit, ég veit, þess vegna ætla ég að safna mér fyrir einni slíkri og mér er alveg sama hversu langan tíma það tekur mig. Ég skal vinna fyrir annað fólk, ég ætla að spara hvern eyri, ég skal gera hvað sem er til þess að eignast mína eigin Biblíu.

Og það var nákvæmlega þetta sem Mary gerði. Í sex löng ár safnaði hún öllum þeim peningum sem hún gat, þar til sá dagur rann upp þegar hún átti næga peninga til þess að kaupa Biblíu. Hr. Evans hafði sagt henni að maður nokkur í bænum Bala ætti nokkrar Biblíur. Mary, sem nú var fimmtán ára að aldri, sagði móður sinni að hún ætlaði að fara fótgangandi til Bala.

Móðir hennar hrópaði upp yfir sig: „Dóttir mín, þetta er í nærri fjörutíu kílómetra fjarlægð!“ En ekkert gat talið Mary hughvarf — eftir þessu hafði hún beðið of lengi. Hún hélt því af stað með peningabudduna sína og brauðsneiðar með osti vafðar í böggul.

Ferðin til Bala virtist vera endalaus. Mary fylgdi mörgum stígum, fór yfir dali og læki og arkaði um hæðir. Er þreytan gerði vart við sig og aumir ganglimir hennar virtust nánast uppgefnir, tuldraði hún hvatningarorð fyrir munni sér: „Áfram, Mary, það er ekki mikið eftir núna,“ hugsaði hún með sér. Um síðir kom hún að hæðarbrúninni, þar sem hún gat séð móta fyrir byggð. Tekið var að rökkva og kertaljós fóru að blakta í gluggum húsanna. Hjarta Mary barðist af spenningi. Hérna var Bala, loksins! Hún þekkti staðinn af greinilegri lýsingu hr. Evans. Með endurhlaðna orku og nýja ákveðni í farteskinu hélt hún á ný af stað niður hæðina.

Mary spurði til vegar, hvar hún gæti fundið hr. Charles. Eftir að hafa drepið á dyr á nokkrum stöðum og spurt til vegar, fann hún húsið hans. Hún hljóp upp göngustíginn og barði fast á stóru eikarhurðina.

Þegar opnað var fyrir Mary varð hún óðamála og áköf er hún bað um Biblíu: „Ég hef gengið 40 kílómetra á leiðinni hingað, ég hef sparað í sex ár til þess að geta keypt Biblíu, hér eru peningarnir — þér getið talið þá ef þér viljið — gæti ég fengið Biblíu?“

Hr. Charles varð furðu lostinn. „Þú ættir endilega að koma inn fyrir og segja mér allt af létta, en fyrst verður þú að fá matarbita. Þú hlýtur að vera banhungruð.“ Hann brosti blíðlega og gaf ráðskonunni bendingu um að fylgja Mary inn í eldhúsið.

Eftir að hafa tekið til matar síns sagði Mary hr. Charles alla sólarsöguna. Hann varð snortinn af frásögn hennar. Og hann tók fram glænýja Biblíu og sýndi henni. Mary góndi á hana heillengi áður en hún tók við henni með báðum höndum. Síðan þakkaði hún honum hjartanlega fyrir.

Morguninn eftir kvaddi Mary hr. Charles með fjársjóðinn sinn í fanginu og hélt af stað heimleiðis. Tekið var á móti henni með kostum og kynjum. Svo virtist sem allir væru viðstaddir. Móðir hennar breiddi út faðminn á móti henni og vafði hana örmum. Þarna nærri stóðu einnig hr. Evans og presturinn brosandi út að eyrum og klöppuðu. Allir fögnuðu og báðu Mary um að sýna sér Biblíuna hennar. Er hún hélt bókinni þannig uppi að allir sæju, muldraði hún nokkur orð í hljóði: „Þakka þér fyrir, Jesús, þakka þér fyrir, herra Charles,“ sagði hún.

Í lesstofu sinni varð hr. Charles hugsað til ungu stúlkunnar, sem hafði horfið yfir hæðarbrúnina og hélt enn Biblíunni sinni við brjóstið. Honum varð hugsað til allra annarra Marya Jones sem hlutu að vilja fá Biblíur, ekki eingöngu í Wales heldur á Englandi, Skotlandi, Írlandi og jafnvel í fjarlægari löndum.

Árið 1804 varð Hið breska og erlenda biblíufélag til, fyrir tilstilli Thomas Charles og annarra mikils metinna manna sem viðbrögð í neyð vegna þess fólks sem höfðu svipaðar sögur að segja og draga mátti fram í dagsljósið.

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi úr ensku

 

 

Biblíufélagið er að störfum á þeim degi þegar opinberun, innblástur og speki Biblíunnar, sem gefin er af Guði, mótar líf og samfélög út um allan heim.