Guð hegnir og fyrirgefur

33 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, mun ég ríkja yfir ykkur með sterkri hendi, upphöfnum armi og fossandi heift. 34 Ég mun leiða ykkur frá framandi þjóðum og löndum og safna ykkur saman úr þeim löndum, sem ykkur var dreift til, með sterkri hendi, upphöfnum armi og fossandi heift. 35 Ég mun fara með ykkur inn í eyðimörk þjóðanna og þar held ég dóm yfir ykkur augliti til auglitis. 36 Ég held dóm yfir ykkur eins og ég hélt dóm yfir feðrum ykkar í eyðimörk Egyptalands, segir Drottinn Guð. 37 Ég mun láta ykkur renna undir hirðisstafinn og telja ykkur vandlega.[ 38 Uppreisnarseggi og þá sem voru mér mótsnúnir skil ég frá ykkur. Þótt ég leiði þá út úr landinu, sem þeir leituðu hælis í, munu þeir ekki komast inn í land Ísraels. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.
39 En þið, Ísraelsmenn. Svo segir Drottinn Guð: Sérhver fleygi burt skurðgoðum sínum. En síðar munuð þið áreiðanlega hlusta á mig og ekki vanhelga mitt heilaga nafn framar með gjöfum ykkar og skurðgoðum. 40 Því að á mínu heilaga fjalli, á hinu háa fjalli Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, allir í landinu, þjóna mér. Þar mun ég taka náðarsamlega á móti þeim og þar mun ég áskilja mér afgjöld ykkar, frumgróðafórnir og allar helgigjafir ykkar. 41 Ég mun taka náðarsamlega á móti ykkur vegna hins þægilega fórnarilms.
Þegar ég leiði ykkur frá hinum framandi þjóðum og safna ykkur saman úr löndunum, sem ykkur var dreift um, mun ég opinbera heilagleika minn á ykkur í augsýn þjóðanna. 42 Og þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég leiði ykkur inn í land Ísraels, inn í landið sem ég sór með uppréttum armi að gefa feðrum ykkar. 43 Þar munuð þið minnast breytni ykkar og allra verka ykkar sem þið hafið saurgað ykkur á. Þá mun ykkur bjóða við sjálfum ykkur vegna allra þeirra illu verka sem þið hafið framið. 44 Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég fer þannig með ykkur vegna nafns míns en ekki vegna illrar breytni ykkar og óhæfuverka, Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð.