19. kafli

10Móðir þín var eins og vínviður
sem gróðursettur var við vatn.
Hann bar margar greinar og ríkulegan ávöxt
því að hann hafði nóg vatn.
11Greinar hans urðu sterkar,
þær mátti hafa í veldissprota.
Vöxtur hans varð mikill,
hann gnæfði hátt meðal skýja
og sást langt að, svo hár var hann
og greinarnar margar.
12En hann var rifinn upp í heift
og fleygt til jarðar.
Austanvindurinn þurrkaði ávexti hans
og þeir voru slitnir af honum.
Hinar voldugu greinar skrælnuðu,
eldur gleypti þær.
13Nú er hann gróðursettur í eyðimörk,
í þurru og þyrstu landi.
14Eldur blossaði út úr stofninum
og gleypti bæði greinar og ávöxt
svo að engin sterk grein varð eftir
sem hafa mætti í veldissprota.

15 Þetta er harmljóð og verður harmljóð.

20. kafli

Sviksemi Ísraels frá upphafi

1 Á tíunda degi fimmta mánaðar sjöunda ársins komu nokkrir af öldungum Ísraels til að leita svara hjá Drottni og settust frammi fyrir mér. 2 Þá kom orð Drottins til mín: Mannssonur, ávarpaðu öldunga Ísraels og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: 3 Eruð þið komnir til að leita svara hjá mér? Svo sannarlega sem ég lifi leyfi ég ykkur ekki að leita svara hjá mér, segir Drottinn Guð. 4 Vilt þú ekki heldur dæma þá? Mannssonur, vilt þú dæma þá? Leiddu þeim viðbjóðslega breytni feðra þeirra fyrir sjónir 5 og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem ég valdi Ísrael, hóf ég upp hönd mína og vann niðjum Jakobsættar eið. Ég opinberaði mig þeim í Egyptalandi, hóf upp hönd mína, sór og sagði: Ég er Drottinn Guð ykkar. 6 Þann dag hóf ég upp hönd mína og sór þeim að leiða þá út úr Egyptalandi til lands sem ég hafði valið þeim, lands sem flýtur í mjólk og hunangi og ber af öllum löndum. 7 Því næst sagði ég við þá: Sérhver ykkar fleygi þeim viðurstyggilegu skurðgoðum sem augu ykkar beinast að. Saurgið ykkur ekki á skurðgoðunum í Egyptalandi. Ég er Drottinn Guð ykkar. 8 En þeir risu gegn mér og vildu ekki hlusta á mig. Enginn fleygði viðurstyggilegum skurðgoðunum sem augu þeirra loddu við, og þeir sneru ekki baki við skurðgoðum Egyptalands.
Þá hugðist ég úthella reiði minni yfir þá og svala heift minni á þeim í Egyptalandi. 9 En sökum nafns míns gerði ég það ekki svo að það yrði ekki vanhelgað í augum þjóðanna sem þeir bjuggu á meðal. Ég hafði opinberað mig Ísraelsmönnum í augsýn þjóðanna til að leiða þá út úr Egyptalandi 10 og ég leiddi þá út úr Egyptalandi og fór með þá inn í eyðimörkina.