1 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2Guð, með eigin eyrum höfum vér heyrt,
feður vorir hafa sagt oss
frá dáðum, sem þú drýgðir á dögum þeirra,
á löngu liðnum tímum.
3Þú stökktir burt þjóðum
en gróðursettir feðurna,
þú lékst lýði harðlega
en lést þá breiða úr sér.
4Ekki unnu þeir landið með sverðum sínum
og ekki hjálpaði armur þeirra þeim
heldur hægri hönd þín og armur
og ljómi auglitis þíns
því að þú hafðir þóknun á þeim.
5Þú ert konungur minn og Guð minn,
bjóð þú að Jakob sigri.
6Með þinni hjálp leggjum vér andstæðinga vora að velli,
með nafni þínu troðum vér fótum þá sem gegn oss rísa.
7Ég treysti ekki boga mínum
og sverð mitt veitir mér ekki sigur
8heldur veittir þú oss sigur á óvinum vorum
og lætur þá sem oss hata verða til skammar.
9Af Guði hrósum vér oss ætíð
og lofum nafn þitt að eilífu. (Sela)