Guðs ríki komið

22 Þá var maður færður til Jesú haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann svo að hinn mállausi gat talað og séð. 23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: „Hann er þó ekki sonur Davíðs?“
24 Þegar farísear heyrðu það sögðu þeir: „Þessi maður rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda.“
25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt leggst í auðn og hver sú borg eða heimili sem er sjálfu sér sundurþykkt fær ekki staðist. 26 Ef Satan rekur Satan út er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist? 27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt eigum hans nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.
30 Hver sem er ekki með mér er á móti mér og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. 31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. 32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda