Drottinn hvíldardagsins

1 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta. 2 Þegar farísear sáu það sögðu þeir við hann: „Lít á, lærisveinar þínir gera það sem ekki er leyft að gera á hvíldardegi.“
3 Jesús svaraði þeim: „Hafið þið ekki lesið hvað Davíð gerði þegar hann hungraði og menn hans? 4 Hann fór inn í Guðs hús og þeir átu skoðunarbrauðin sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta. 5 Eða hafið þið ekki lesið í lögmálinu að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum og eru þó án saka? 6 En ég segi ykkur: Hér er meira en musterið. 7 Ef þið hefðuð skilið hvað felst í orðunum: Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir, munduð þið ekki hafa sakfellt saklausa menn. 8 Því að Mannssonurinn er Drottinn hvíldardagsins.“

Með visna hönd

9 Jesús fór þaðan og kom í samkundu þeirra. 10 Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Jesú: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?“ Þeir hugðust kæra hann.
11 Hann svarar þeim: „Nú á einhver ykkar eina sauðkind og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr? 12 Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gera góðverk á hvíldardegi.“ 13 Síðan segir hann við manninn: „Réttu fram hönd þína.“
Hann rétti fram höndina og hún varð heil sem hin. 14 Þá gengu farísearnir út og tóku saman ráð sín gegn honum hvernig þeir gætu náð lífi hans.

Sjá þjón minn

15 Þegar Jesús varð þess vís fór hann þaðan. Margir fylgdu honum og alla læknaði hann. 16 En hann lagði ríkt á við þá að þeir gerðu hann eigi kunnan. 17 Þannig átti það að rætast sem Jesaja spámaður sagði fyrir um:
18Sjá þjón minn sem ég hef útvalið,
minn elskaða sem ég hef velþóknun á.
Ég mun láta anda minn koma yfir hann
og hann mun boða þjóðunum rétt.
19Hvorki mun hann þrátta né hrópa
og lætur ekki heyra rödd sína á strætum.
20Brákaðan reyr brýtur hann ekki
og dapraðan hörkveik slekkur hann ekki,
uns hann hefur leitt réttinn til sigurs.
21Á nafn hans munu þjóðirnar vona.