26 Þú ert trúum trúr,
ráðvöndum ráðvandur,
27 einlægur einlægum,
en andsnúinn svikurum.
28 Þú frelsar undirokaða
en hefur augu á hinum hrokafullu og auðmýkir þá.
29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
30 Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
með Guði mínum stekk ég yfir múra.
31 Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er áreiðanlegt,
skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
32 Hver er Guð nema Drottinn?
Hver er bjarg nema Guð vor?
33 Guð er mitt trausta vígi,
hann greiddi mér götu sína.
34 Hann gerir fót minn fráan sem hindarinnar,
veitir mér fótfestu á hæðunum.
35 Hann þjálfar hendur mínar til hernaðar,
arma mína til að spenna eirbogann.
36 Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
heit þitt gerði mig mikinn.
37 Þú rýmdir fyrir skrefum mínum
og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti fjandmenn mína og upprætti þá
og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði eytt þeim.
39 Ég eyddi þeim, molaði þá sundur
svo að þeir risu ekki upp aftur
og lágu undir fótum mínum.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til hernaðar,
beygðir fjandmenn mína undir mig.
41 Þú hraktir fjandmenn mína á flótta,
ég eyddi hatursmönnum mínum.
42 Þeir hrópuðu en enginn kom til hjálpar,
hrópuðu til Drottins en hann svaraði ekki.
43 Ég muldi þá, þeir urðu sem ryk,
tróð þá undir fótum eins og skarn á götu.
44 Þú bjargaðir mér úr átökum þjóðar minnar,
gerðir mig að leiðtoga þjóðanna.
Þjóð, sem ég þekkti ekki áður, þjónar mér.
45 Framandi menn smjaðra fyrir mér,
hlýða mér um leið og þeir heyra í mér.
46 Framandi menn missa máttinn,
koma skjálfandi úr fylgsnum sínum.
47 Drottinn lifir. Lofað sé bjarg mitt.
Guð, klettur hjálpræðis míns, sé upphafinn,
48 Guð veitir mér hefnd,
leggur þjóðir undir mig,
49 lætur mig komast undan fjandmönnum mínum.
Þú hefur mig yfir andstæðinga mína,
frelsar mig frá ofbeldismönnum.
50 Þess vegna vegsama ég þig meðal þjóðanna, Drottinn,
lofsyng nafn þitt.
51 Hann veitir konungi sínum mikla sigra,
auðsýnir sínum smurða trúfesti,
Davíð og niðjum hans ævinlega.