Biblíulestur 24. maí – 2Sam 21.10-22

2018-04-20T16:48:57+00:00Fimmtudagur 24. maí 2018|

10 Rispa Ajasdóttir tók þá sorgarklæði sín og breiddi þau á klöppina handa sér. Hún var hjá hinum látnu frá því að uppskeran hófst uns regnið tók að hellast yfir þá af himnum ofan. Hún verndaði þá fyrir fuglum himins um daga og dýrum merkurinnar um nætur.
11 Þegar Davíð var sagt frá því sem Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gert 12 fór hann og sótti bein Sáls og Jónatans, sonar hans, til íbúa Jabesborgar í Gíleað. Þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San þar sem Filistear höfðu hengt þau upp þegar þeir felldu Sál á Gilbóa. 13 Þaðan lét Davíð flytja bein Sáls og Jónatans, sonar hans. Því næst var beinum þeirra, sem líflátnir höfðu verið, safnað saman 14 og þau grafin með beinum Sáls og Jónatans, sonar hans, í gröf Kíss, föður hans, í Sela í landi Benjamíns. Eftir að farið hafði verið í einu og öllu að boði konungs mildaðist Guð aftur við landið.

Stríð við Filistea

15 Enn einu sinni kom til ófriðar milli Filistea og Ísraelsmanna. Davíð hélt þá niður eftir ásamt mönnum sínum og þeir börðust gegn Filisteum. Þegar Davíð tók að þreytast 16 kom Refaítinn Jisbi Benob þar að, vopnaður eirspjóti, sem vó þrjú hundruð sikla, og gyrtur nýju sverði. Hann hugðist fella Davíð 17 en Abísaí Serújuson kom honum til hjálpar og hjó Filisteann banahögg. Þá sóru menn Davíðs: „Þú skalt aldrei framar fara með okkur út í bardaga svo að þú slökkvir ekki á lampa Ísraels.“[ 18 Síðar kom til bardaga við Filistea hjá Gób. Þá drap Sibbekaí frá Húsa Saf sem var af ætt Refa.
19 Enn á ný kom til bardaga við Filistea hjá Gób. Elkana, sonur Jaírs frá Betlehem, drap þá Golíat frá Gat en spjótskaft hans var eins og vefjarrifur í vefstól.
20 Þá varð enn bardagi við Gat. Þar var risavaxinn maður, sem hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, alls tvær tylftir. Einnig hann var af ætt Refa. 21 Þegar hann hæddist að Ísrael drap Jónatan hann en hann var sonur Símea, bróður Davíðs.
22 Þessir fjórir menn voru afkomendur Refa frá Gat. Þeir féllu allir fyrir hendi Davíðs og manna hans.

Title

Fara efst