Jóab ávítar Davíð

1 Konungi var mjög brugðið, hann gekk upp í herbergið yfir borgarhliðinu og brast í grát. Á meðan hann gekk um gólf sagði hann: „Sonur minn, Absalon. Sonur minn, sonur minn, Absalon. Ég hefði betur dáið í þinn stað. Sonur minn, Absalon, sonur minn!“
2 Jóab var þá tilkynnt: „Konungurinn grætur og syrgir Absalon.“ 3 Sigurinn varð öllum hernum harmsefni þennan dag þegar honum bárust tíðindin: „Konungurinn syrgir son sinn.“ 4 Þennan dag laumaðist herinn inn í borgina eins og her sem hefur flúið með skömm úr orrustu. 5 En konungur huldi andlit sitt og kveinaði hástöfum: „Sonur minn, Absalon. Absalon, sonur minn, sonur minn.“
6 Þá gekk Jóab inn í húsið til konungs og sagði: „Í dag hefur þú smánað alla þjóna þína sem hafa bjargað lífi þínu, lífi sona þinna og dætra, lífi kvenna þinna og hjákvenna, 7 með því að sýna hatursmönnum þínum vináttu en vinum þínum fjandskap. Í dag hefur þú gert okkur ljóst að hershöfðingjar þínir og hermenn eru þér einskis virði. Í dag hef ég komist að raun um að þú vildir helst að Absalon væri á lífi en við allir dauðir. 8 Rístu nú á fætur, farðu út og segðu nokkur viðurkenningarorð við menn þína. Ég sver við Drottin að enginn verður eftir hjá þér næstu nótt ef þú ferð ekki út til þeirra. Það verður meiri ógæfa en þú hefur orðið fyrir frá barnæsku og allt til þessa dags.“
9 Þá reis konungur á fætur og settist í borgarhliðið. Og þegar hernum var tilkynnt að konungurinn sæti í borgarhliðinu gekk allur herinn fyrir konung.