Uppreisn Absalons

1 Nokkru síðar fékk Absalon sér vagn og hesta og fimmtíu menn sem jafnan hlupu á undan honum. 2 Snemma morguns var hann vanur að standa við veginn að borgarhliðinu. Hvert sinn sem einhver fór þar um til að leggja mál í dóm konungs kallaði Absalon til hans: „Frá hvaða borg ert þú?“ Þegar hann svaraði: „Þjónn þinn er af einum ættbálki Ísraels,“ 3 sagði Absalon við hann: „Þú hefur góðan og réttan málstað en enginn fulltrúi konungs mun hlusta á þig.“ 4 Síðan bætti Absalon við: „Væri ég skipaður dómari í þessu landi kæmu allir til mín sem ættu í deilum eða málaferlum. Ég sæi til þess að þeir næðu rétti sínum.“ 5 Hverju sinni, sem einhver kom til hans og ætlaði að lúta honum, rétti hann út höndina til að koma í veg fyrir það og kyssti hann síðan. 6 Á þennan hátt kom Absalon fram við alla þá Ísraelsmenn sem komu til að leggja mál fyrir konung og þannig slævði hann dómgreind Ísraelsmanna.[
7 Fjórum árum síðar[ sagði Absalon einhverju sinni við konung: „Leyf mér að fara til Hebron og standa við heit sem ég vann Drottni. 8 Þegar ég, þjónn þinn, bjó í Gesúr í Aram vann ég svohljóðandi heit: Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem skal ég halda honum fórnarveislu.“ 9 Konungur svaraði honum: „Far þú í friði.“ Hann lagði þá af stað og fór til Hebron.
10 Síðan sendi Absalon menn til allra ættbálka Ísraels með þessi boð: „Þegar þið heyrið hafurshornið gjalla skuluð þið hrópa: Absalon er konungur í Hebron.“
11 Tvö hundruð manns höfðu fylgt Absalon frá Jerúsalem. Þeim var boðið í veisluna og þeir fylgdu honum í grandaleysi. 12 Í tilefni af fórnarveislunni lét Absalon sækja Akítófel frá Gíló, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, heimaborgar hans. Þannig magnaðist samsærið og æ fleiri gengu í lið með Absalon.