10. kafli

21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 22 Allir munu hata yður af því að þér trúið á mig. En sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast. 23 Þegar menn ofsækja yður í einni borg þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels áður en Mannssonurinn kemur.
24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum. 25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst menn kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?

Hvern ber að hræðast?

26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert, né leynt er eigi verður kunnugt. 27 Það sem ég segi yður í myrkri skuluð þér tala í birtu og það sem þér heyrið hvíslað í eyra skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. 28Hræðist ekki þá sem líkamann deyða en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. 29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar[ föður yðar. 30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. 31 Verið því óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar.

Að kannast við Krist

32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. 33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.

Barátta

34 Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. 35 Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. 36 Og heimamenn manns verða óvinir hans.
37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér er mín ekki verður og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér er mín ekki verður. 38 Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér er mín ekki verður. 39 Sá sem ætlar að finna líf sitt týnir því og sá sem týnir lífi sínu mín vegna finnur það.

Laun

40 Sá sem tekur við yður tekur við mér og sá sem tekur við mér tekur við þeim er sendi mig. 41 Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns. 42 Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“

11. kafli

Sá sem koma skal

1 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.