Salt og ljós

13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Nýtt lögmál

17 Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. 18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. 19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki. 20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea komist þér aldrei í himnaríki.