14Hornið er þeytt,
allir herbúnir
en enginn heldur til orrustu
því að reiði mín kemur yfir allan landslýð.
15Sverð er úti fyrir,
inni drepsótt og hungur.
Sá sem er úti á akri
skal falla fyrir sverði.
Sá sem er inni í borginni
verður hungri og drepsótt að bráð.
16Komist nokkrir þeirra undan
hafast þeir við í fjöllunum
eins og daladúfurnar,
þeir munu allir deyja,
hver þeirra vegna syndar sinnar.
17Allar hendur verða máttvana
og öll kné kikna. [
18Þeir gyrða sig hærusekk
og skelfingin hylur þá,
hvert andlit roðnar af skömm
og hvert höfuð er nauðrakað.
19Þeir fleygja silfri sínu á göturnar,
gullið verður að skarni.
Silfur þeirra og gull fær ekki bjargað þeim
á degi reiði Drottins.
Þeir geta ekki satt hungur sitt,
ekki fyllt kvið sinn,
því að þetta varð þeim hrösunarhella.
20Þeir hreyktu sér af dýrmætu skarti sínu
og gerðu sér úr því andstyggileg skurðgoð
sem vekja viðbjóð.
Því hef ég gert þetta allt að skarni fyrir þeim
21og sel það framandi mönnum í hendur sem ránsfeng
og hinum guðlausu á jörðinni sem herfang,
þeir munu vanhelga það.
22 Ég mun snúa augliti mínu frá þeim
og þeir munu vanhelga fjársjóð minn. [
Ræningjar munu brjótast inn í hann,
vanhelga hann
23 og vinna spellvirki
því að landið er fullt af blóðsúthellingum
og borgin af ofbeldisverkum.
24 Ég mun stefna hingað verstu þjóðum
sem munu kasta eign sinni á hús þeirra.
Ég mun binda enda á hroka hinna voldugu
og helgidómar þeirra verða vanhelgaðir.
25 Skelfing kemur,
menn leita friðar án árangurs.
26 Ógæfa á ógæfu ofan,
ein ótíðindin fylgja öðrum.
Þeir munu leita vitrunar hjá spámanni
en leiðsögnin bregst prestinum
og ráðgjöfin öldungunum.
27 Konungurinn mun syrgja,
höfðinginn klæðast skelfingu,
landsbúum fallast hendur af ótta.
Ég launa þeim breytni þeirra
og dæmi þá eins og þeir hafa dæmt
og þeir skulu skilja að ég er Drottinn.