16Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
17Háttur hreinskilinna er að forðast illt,
líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar.
18Dramb er falli næst,
hroki veit á hrun.
19Betra er að vera hógvær með lítillátum
en deila feng með dramblátum.
20Vel farnast þeim sem vel rækir erindi sitt
og sæll er sá sem treystir Drottni.
21Hinn vitri leitar ráða spekinga
og vel mælt orð eykur fræðslu.
22 Skynsemin er lífslind þeim sem hana á
en heimskan er refsing heimskra.
23 Hjarta spekingsins ræður orðum hans
og eykur fræðsluna á vörum hans.
24 Vingjarnleg orð eru hunang,
sæt fyrir góminn, lækning fyrir beinin.
25 Margur vegur virðist greiðfær
en reynist þó heljarslóð.
26 Hungur erfiðismannsins knýr hann til verka
því að sulturinn rekur á eftir honum.
27 Varmennið bruggar vélráð,
orð hans eru sem brennandi eldur.
28 Vélráður maður kveikir illdeilur
og rógberinn veldur vinaskilnaði.
29 Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn
og leiðir hann í ófæru.
30 Hálflukt augu vitna um ill áform,
herptar varir um unnið ódæði.
31 Gráar hærur eru heiðurskóróna,
á vegi réttlætis öðlast menn hana.
32 Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi
og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.
33 Í skikkjufellingu eru teningarnir hristir
en Drottinn ræður hvað upp kemur.