Davíð fréttir dauða Sáls

1 Þegar Sál var allur sneri Davíð heim og hafði þá unnið sigur á Amalekítum. Hann var tvo daga í Síklag. 2 Á þriðja degi kom maður frá herbúðum Sáls. Hann var í rifnum fötum og með mold á höfði. Þegar hann kom til Davíðs fleygði hann sér flötum og sýndi honum lotningu. 3 „Hvaðan kemur þú?“ spurði Davíð. Hann svaraði: „Ég slapp úr herbúðum Ísraels.“ 4 „Hvað gerðist?“ spurði Davíð. „Segðu mér frá.“ Maðurinn svaraði: „Herinn flýði úr bardaganum þegar margir voru fallnir. Sál og Jónatan, sonur hans, eru líka fallnir.“ 5 Þá spurði Davíð unga manninn sem flutti fréttirnar: „Hvernig veistu að Sál og Jónatan, sonur hans, eru fallnir?“ 6 Sendiboðinn ungi sagði: „Ég átti leið um Gilbóahálendið. Þar sá ég Sál styðjast við spjót sitt og þrengdu stríðsvagnar og riddarar að honum. 7 Þegar hann sneri sér við kom hann auga á mig, kallaði til mín og ég svaraði. 8 Hann spurði: Hver ert þú? Og ég svaraði: Ég er Amalekíti. 9 Þá sagði hann við mig: Komdu hingað og banaðu mér. Ég er enn á lífi en mér sortnar fyrir augum. 10 Ég gekk þá til hans og vann á honum því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ósigur sinn. Síðan tók ég kórónuna, sem hann bar á höfði, og armbandið, sem hann hafði um handlegg sér, og nú færi ég þér, herra minn, þessa gripi.“
11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau og allir, sem hjá honum voru, fóru eins að. 12Þeir syrgðu, grétu og föstuðu til kvölds vegna Sáls og Jónatans, sonar hans, og vegna lýðs Drottins og konungsættar Ísraels sem var fallin fyrir sverði.
13 Davíð spurði unga manninn sem flutti honum fréttirnar: „Hvaðan ert þú?“ Hann svaraði: „Ég er sonur Amalekíta sem býr hér og er aðkomumaður.“ 14 Þá sagði Davíð við hann: „Hvernig dirfðistu að lyfta hendi til að deyða Drottins smurða?“ 15 Síðan kallaði Davíð á einn af mönnum sínum og sagði: „Komdu og veittu honum banahögg,“ og hann hjó hann til bana. 16 Davíð hafði sagt við sendiboðann: „Blóðsekt þín kemur yfir sjálfan þig því að þú vitnaðir með eigin orðum gegn þér þegar þú sagðir: Ég hef fellt Drottins smurða.“