Kristnir menn í Egyptalandi eru í miklum minnihluta í landinu þar sem þeir mynda aðeins tíu af hundraði landsmanna. Þeir þurfa að leita eigin leiða til þess að iðka trú sína í samfélagi, sem mótað er af múslimskum sið. Þar skipar Biblían öndvegi hjá kristnu fólki. Frá henni öðlast það kraft og traust, sérstaklega á viðsjárverðum tímum. Þannig er Biblíufélagið kristnu fólki mikilvægt akkeri. Það styrkir kirkjurnar á landsvísu með miklum fjölda biblíurita. Þannig geta jafnt ungir sem aldnir vaxið og eflst í trúnni. Þrátt fyrir skólagöngu er þriðjungur íbúa Egyptalands hvorki læs né skrifandi. Margt fólk glatar aftur þeirri færni eftir skólagöngu, ekki síst vegna þess að það getur ekki gengið að bókum. Biblíufélagið hefur þess vegna þróað sérstök biblíulestrarnámskeið fyrir börn og fullorðna. Þau gera viðkomandi raunverulega kleift að læra að lesa og skilja betur Orð Guðs.

Á landsvísu starfrækir Biblíufélagið 16 bókabúðir. Þær eru einu staðirnir utan kirkjunnar þar sem hægt er að fá upplýsingar um Biblíuna. Margt fólk af ólíkum trúarbrögðum sækja sér einnig sálgæslu þar.

Um Egyptaland
  • 88,5 milljónir íbúa
  • 10% Kristinnar trúar
  • 100.000 Barnabiblíur
RAMEZ ATALLAH, framkvæmdastjóri Hins egypska biblíufélags segir frá:

Oft er ég spurður, hvernig Biblíufélagið hjálpar kristnu fólki í Egyptalandi. Þá segi ég sögu hins tíu ára gamla Abram Labieb. Foreldrar hans kunna hvorki að lesa né skrifa. Þau eru kristin og sækja reglulega guðsþjónustu ásamt fjölskyldu sinni. Abram les upp úr Biblíunni fyrir foreldra sína. Þeir eru stoltir af því að Abram getur lesið. Á „Kingo“-hátíð eignaðist hann í fyrsta skipti bækling með biblíusögum . Síðan hefur hann sótt biblíulestrarnámskeið í söfnuði sínum. Fjölskyldan fylgist heils hugar með, þegar Abram les fyrir þau sögur úr Biblíunni.

Faðir, Abrams, Najieh starfar við landbúnað og hefur aðeins lágar tekjur. Hann getur ekki útvegað sér sína eigin Biblíu. Hann hefur því fengið eina slíka frá okkur, svo að Abram geti lesið upp úr henni. Orð Guðs skiptir eiginkonu hans, Sadeiu, miklu máli. Hún hefur myndað góð tengsl við múslimska nágranna sína, sem ekki þykir sjálfsagt mál hjá okkur. Hún biður mikið og orð Biblíunnar hjálpa henni að sýna þolinmæði, einnig þegar erfiðleikar steðja að.

Biblíufélagið hefur staðið fyrir sunnudagaskóla fyrir börn. Magda ber ábyrgð á því starfi.

Í byrjun var Girges sunnudagaskólakennara sínum, Mögdu, byrði. Hann truflaði markvisst kennslu og sýndi öðrum enga virðingu. „Börn eins og Girges glíma við erfið vandamál,“ segir Magda. „Í ríkisskólum eiga þau bara að hlusta og þurfa að vera stillt. Álit þeirra vekur engan áhuga kennaranna og ekki má spyrja út í kennsluefnið. Þannig er það ekki á biblíulestrarnámskeiðinu okkar. Hér mega börnin tjá hugsanir sínar um biblíutexta hvert við annað. Allir komast að, allar skoðanir eru okkur mikilvægar og við leggjum það á okkur að svara spurningum barnanna út frá Biblíunni. Svo veltum við því fyrir okkur í sameiningu, hvernig þessi orð passa inn í okkar líf. Við tókum öll eftir því, hvernig Girges breyttist. Hann hætti að trufla og fór að vera alveg með á nótunum. Ég gat varla trúað þessu. Ég er svo þakklát fyrir að Orð Guðs hefur náð til hjarta hans.“