Í nýrri skýrslu, sem unnin er af KIFO, í samstarfi við Hið norska biblíufélag, hefur vísindamaðurinn Tore Witsø Rafoss greint það, hvernig Norðmenn nota Biblíuna og byggir það á fyrirliggjandi, megindlegum rannsóknum.

Rannsóknin sýnir meðal annars að eldra fólkið les meira í Biblíunni en það yngra, en einnig að ungir karlar skera sig úr sem hópur er les mikið.

Hefðin hefur verið sú að eldra fólkið les meira en yngra fólkið og konur lesa meira en karlar. En eftir því sem við förum neðar í aldri sjáum við að það breytist. Karlar yngri en 25 ára lesa meira en ungar konur. Þetta þurfum við að skoða betur, segir framkvæmdastjóri Biblíufélagsins, Ingeborg Mongstad-Kvammen.

Witsø Rafoss telur einnig að þetta þurfi nánari rannsókna við.

— Þetta mál vekur athygli, hvernig sem á því stendur. Fyrir um það bil 30 árum lásu konur talsvert meira í Biblíunni en karlar. Þannig er það ekki lengur. Í heildina eru kynin býsna áþekk, segir vísindamaðurinn við KIFO, Stofnun fyrir rannsóknir á kirkju-, trúarbragða-og lífsskoðanamálum.

Mongstad-Kvammen telur mikilvægt fyrir Biblíufélagið að gerðar verði megindlegar rannsóknir á meðal ungs fólks sem tilheyrir kristnum samfélögum.

— Við verðum að skoða hvernig það lítur á Biblíuna og notkun hennar og hvað veitist þeim auðvelt eða erfitt. Það er afskaplega mikilvægt að komast að því, segir hún.

Tore Witsø Rafoss, rannsóknarmaður hjá KIFO, kynnti glænýja skýrslu um notkun Biblíunnar á aðalfundi Biblíufélagsins mánudaginn 29. maí síðastliðinn.

Meiri lestur Biblíunnar á meðal fríkirkjufólks

— Það er augljóst að lesturinn gegnir mun stærra hlutverki innan fríkirknanna en innan norsku þjóðkirkjunnar og rómversk-kaþólsku kirkjunnar, segir Witsø Rafoss.

Þrátt fyrir að hvítasunnuhreyfingin og aðrir fríkirkjusöfnuðir nái aðeins 4,7% af heldaríbúafjölda í Noregi, ná söfnuðirnir samkvæmt rannsókninni 27,9% þeirra sem lesa í Biblíunni vikulega.

— Á meðan 10 af hundraði meðlima norsku kirkjunnar segjast lesa vikulega í Biblíunni, segjast 86 af hundraði hvítasunnumanna hið sama. Það er alveg greinileg og afar áhugaverð staðreynd, segir Witsø Rafoss.

Af þeim sem tilheyra öðrum fríkirkjusöfnuðum segjast 60% lesa Biblíuna vikulega.

— Það er ástæða til þess að sjá hvað hvítasunnuhreyfingin og fríkirkjurnar gera, segir Mongstad-Kvammen.

Við þurfum frekari rannsóknir á notkun Biblíunnar á breiðum grundvelli, ekki einungis á lestri og því hversu mikið lesið er. Í bígerð er að notast bæði við eigindlegar rannsóknir og um leið nýjar megindlegar rannsóknir með meiri tölfræði, segir Witsø Rafoss í KIFO.

Vel menntað fólk les mest

Skýrsla KIFOs sýnir fram á að fjöldi þeirra sem lesa í Biblíunni eykst samhliða menntun, og þau sem lesa mest hafa hæst menntunarstig.

— Þetta kemur á óvart, ég hélt ef til vill að sú væri ekki raunin, segir Mongstad-Kvammen.

Witso Rafoss finnst þetta með menntunina einnig vera sérstakt.

— Gengið er út frá því að fólk með hærri menntun sé síður trúað, en sé litið á biblíulesturinn, þá eykst hann samhliða menntuninni. Það er áhugaverð staðreynd sem gengur í berhögg við hluta væntinga og fyrri rannsókna, segir hann.

Hann telur ástæðuna fyrir þessu vera þá að fjöldi þeirra, sem telja sig „játa kristna trú“ eykst með hærri menntun.

— Það eru sérstaklega þeir er telja sig játa kristna trú sem lesa mikið í Biblíunni. Fjöldi þeirra sem játa kristna trú eykst í takt við menntunina. Þeir sem hafa lokið hæsta menntunarstigi á borð við doktorsgráðu, lesa mest. Þar er einnig að finna fjölda þeirra sem játa kristna trú, segir Witsø Rafoss.

Hann telur að gera þurfi greinarmun á þeim sem kalla mætti virka og óvirka kristna menn, eigi að rannsaka samhengið á milli trúar og menntunar.

— Á meðal þeirra sem búa yfir mestri menntun má bæði finna mesta fjölda þeirra, sem játa kristna trú, en einnig mestan fjölda guðleysingja. Þarna verður til togstreita í sambandi við trúna.

Lítill munur á bæ og borg

Witsø Rafoss segir að samkvæmt greiningunni skipti ekki meginmáli hvort búið sé í þéttbýli eða dreifbýli þegar biblíunotkun er annars vegar.

— Maður heldur oft að fólk sé trúaðra á smærri stöðum, en þess gætir fremur lítið hér, segir hann.

Undantekninguna má sjá í höfuðborginni þar sem fáir lesa í Biblíunni. Mongstad-Kvammen telur mikilvægt að beina kastljósinu að notkun Biblíunnar í Osló.

— Osló er gífurlega mikilvæg fyrir kirkjurnar. Það er fjölmennasta borg Noregs. Það er hnattræn lenska að sækja í úthverfin. Langflestir íbúar heimsins búa yfirleitt í stærstu borgunum. Fyrir kirkjurnar og okkur sem sýslum með Biblíuna verða stærstu borgirnar sífellt mikilvægari, segir hún.

Jafnvel þótt skýrslan sýni fram á lítinn mun á bæ og borg er samt sem áður talsverður munur á landsvæðum hvað notkun á Biblíunni varðar.

Hefðbundin trúariðkun í Noregi stendur traustum fótum. Staðreyndin er sú að Austur-Agder, Vestur-Agder og Rogaland verðskulda áfram að kallast biblíubeltið. Það er alveg ljóst að í þessum fylkjum er Biblían mest lesin.

Þar sem þrír af hverjum fjórum Norðmönnum tilheyra norsku þjóðkirkjunni teljast 10% fremur stór hluti íbúafjöldans. Af þeim Norðmönnum sem að jafnaði lesa í Biblíunni tilheyra 65 af hundraði norsku þjóðkirkjunni.

Vilja hvetja til dáða

Skýrslan er byrjunin á stærra rannsóknarverkefni, sem Biblíufélagið vill gera í samstarfi við KIFO um biblíunotkun í Noregi.

— Okkur hefur fundist mikilvægt að komast að því hvaða vitneskju við höfum um notkun Norðmanna á Biblíunni, þar sem við viljum ásamt öllum kirkjum og kristnum samtökum leita allra leiða til þess að hvetja fólk til þess að nota Biblíuna, segir Mongstad-Kvammen.

Skýrslan var kynnt á aðalfundi Biblíufélagsins síðdegis mánudaginn 29. maí síðastliðinn.

Mongstad-Kvammen telur að eftir að hafa fengið þessar niðurstöður í kjölfar  megindlegra rannsókna, verður enn sem fyrr mikilvægt að komast frekar að því hvers vegna og hvernig fólk notar Biblíuna.

— Við verðum að komast að því hvað það er sem hvetur og letur. Hvers vegna les fólk í Biblíunni og hvaða skoðun hefur fólk á henni? Skýrslan segir ekkert til um það, segir hún.

Hið norska biblíufélag vill í samstarfi við KIFO framkvæma fleiri megindlegar rannsóknir á notkun Biblíunnar.