Orðið „ellibyrði“ væri óhugsandi í Biblíunni, þar sem ellin ætti frekar samleið með vaxandi lífsvisku en líkamlegum hrumleika. Mogens Møller guðfræðingur greinir frá því, hvar hægt er að lesa um elli í Biblíunni.

Litið er með heldur öðrum hætti á elli í Biblíunni en almennt gerist í samfélagi okkar. Orðið „ellibyrði“ yrði hér óhugsandi. Út frá sjónarhorni hins aldraða  er hár aldur í Gamla testamentinu tákn um blessun Guðs. Þess vegna eru það sérstök gæði að fá að deyja „í hárri elli, gamall og saddur lífdaga“ (sjá 1Mós 25.8).

En jafnvel þótt forfeðurnir í biblíusögunni hafi náð gríðarháum aldri (Metúsalem náði samkvæmt 1 Mósebók fullra 969 ára aldri þá var raunar meðalaldur til forna mjög lágur. Þar að auki hefur lífið náttúruleg takmörk.  Biblían talar ekki mikið um ellihrörnun. En við lesum samt um það hvernig hinn aldurhnigni og kulvísi Davíð fær hina ungu súnemsku konu til þess að orna sér í  rúminu (1Kon 1.1-4).

Hin hliðin á málinu er sú afstaða til aldraðra, sem Biblían vill að haldið sé á lofti.  Boðorðið um að heiðra föður sinn og móður (2Mós 20.12; sjá einnig Mark. 7.8-13), er það eina hinna tíu boðorða, þar sem skeytt er fyrirheiti aftan við; „svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.“ Boðorðið getur bent til þess, að ekki hafi slíkt verið sjálfgefið.

Aftur á móti er það tákn um forgengileika tímans, þar sem æskufólk gerir uppreisn gegn foreldrum sínum, nokkuð sem þar að auki gæti varðað dauðarefsingu (sjá til dæmis 2Mós 21.15-17; einnig Jes 3.5; 2Tím 3.2).

Annars er það  segin saga, að aldur tengist vaxandi visku. Aldur getur gefið af sér glöggskyggni. Það á til dæmis við um spákonuna Önnu, 84 ára gamla ekkju, sem sér glöggt, hvern hún hefur fyrir framan sig, er hún ber sveininn Jesú augum (Lúk 2.36-38).

Að aldur sé þannig lífsgæði í sjálfu sér, birtist einnig í því að leiðandi söfnuðir kölluðust öldungaráð og samanstóð af „presbyterum“ (úr grísku; öldungum). Talið er, að þeir hafi upprætt flónsku æskulýðsins og geti verið kennarar (sjá 1Tím 5.17; einnig 1Tím 4.12, þar sem „Tímóteus“ hvetur til þess að láta engan líta smáum augum á æskuna). Við getum samt einnig rekist á hvatningar til þeirra sem eldri eru (sjá Tít 2.1-5).

Það eru minni tengsl á milli elli og líkamlegrar hrörnunar en elli og vaxandi lífsvisku. Ekki er þess lengur vænst að aldrað fólk sé á valdi ástríðna, það ber arfleifð sína áfram til komandi kynslóða og getur miðlað af reynslu sinni. Þess vegna ber að auðsýna því óttablandna virðingu og heiðra sem klettinn í hafinu innan ættarinnar.