Í Malaví hefur ein og hálf miljón manna tungumálið Elhomwe að móðurmáli. Á dögunum var Nýja testamentið gefið út á Elhomwe og var mikil gleði meðal kristinna einstaklinga sem tala það tungumál. Áður en þessi nýja útgáfa kom út hefur kristið fólk sem talar Elhomwe þurft að lesa Nýja testamentið á ensku eða Chicheva, sem er hið opinbera mál Malaví ásamt ensku. Hayes Metani tók þátt í þýðingarvinnunni. Hann segir að með útgáfu nýju þýðingarinnar muni fólkið öðlast dýpri skilning á guðspjöllunum og kynnast textunum upp á nýtt. Guðsþjónustur fara nú einnig fram með öðrum hætti þegar lesið er úr ritningunni á móðurmálinu. Kirkjumálið hefur breyst.
Fólk kom til Hayes og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að það gæti talað við Guð á sínu móðurmáli. Með nýju þýðinguna í höndunum áttaði það sig á því að Guð skilur þeirra tungumál. Manuelo Paya, bóndi í suðurhluta Malaví, er mjög ánægður með útgáfuna. Hann segir að tungumálið Elhomwe standi ekki vel meðal yngri kynslóða og því mun Nýja testamentið á málinu hjálpa til við að festa tungumálið betur í sessi og stuðla að varðveislu þess. Því er ljóst að áhrif nýju þýðingarinnar eru mikil og munu vara lengi.