Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, notaði tvær Biblíur til að sverja embættiseið sem forseti Bandaríkjanna í innsetningarathöfn sinni síðastliðinn föstudag. Auk Biblíu Abrahams Lincolns notaði hann Biblíu sem móðir hans gaf honum í æsku. Báðar bækurnar eiga sína sögu og önnur þeirra hefur sérstaka þýðingu fyrir Trump.

Tom Barrack, formaður innsetningarnefndarinnar, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann útskýrði ákvörðun Trumps. „Í fyrstu innsetningarræðu Abrahams Lincolns skírskotaði hann til hins góða í eðli okkar. Þegar Trump gekkst undir þennan sama eið, 156 árum síðar, lagði hann hönd sína á þær Biblíur sem hafa sérstaka merkingu bæði fyrir fjölskyldu hans og bandarísku þjóðina,“ sagði Barrack í yfirlýsingunni.

Biblíuna fékk Trump að gjöf frá móður sinni, rétt fyrir níu ára afmælið sitt árið 1955, eftir að hann hafði lokið sunnudagaskóla í kirkju þeirra í Queens, New York.

Lincoln Biblían hefur aðeins tvisvar verið notuð eftir að Lincoln sjálfur sór embættiseið, en Barack Obama notaði hana í báðum innsetningarathöfnum sínum.

Þótt Biblían sé kölluð Lincoln Biblían var þetta ekki sú Biblía sem hann notaði persónulega. Samkvæmt CBS fréttastofunni þurfti Lincoln að yfirgefa Baltimore um miðja nótt og fara til Washington eftir að honum hafði borist morðhótun. Persónulegir munir hans, þar á meðal Biblían, bárust ekki í tæka tíð fyrir innsetningarathöfnina. Ritari hæstaréttar, Willam Thomas Carroll, útvegaði fyrir athöfnina Biblíu sem tiltæk var til opinberra nota.

Þótt hefð sé fyrir því að forsetinn velji kostkæfilega þá Biblíu sem hann notar til að sverja embættiseiðinn hefur það ekki alltaf verið svo. George Washington kom þessari hefð á, en engin sérstök áhersla var lögð á hvaða Biblía væri notuð. Samkvæmt The Washington Post fengu skipuleggjendur þeirrar athafnar lánaða Biblíu frá nálægri frímúrarareglu til að nota við athöfnina.

Síðan þá er ætlast til þess að Biblían sem verðandi forseti notar hafi persónulega þýðingu fyrir hann. Þess ber þó að geta að forsetanum er ekki skylt að sverja við Biblíu. Flestir forsetarnir hafa fylgt þessari hefð þótt dæmi séu til um annað. Samkvæmt The Washington Post sór John Quincy Adams embættiseið sinn við lögbók.

sjá nánar http://heavy.com/news/2017/01/what-bible-book-will-is-donald-trump-using-sworn-in-inauguration-ceremony-oath-of-office-why-abraham-lincoln-mom-mother-today-about/