Hin lítt spennandi en þó mikilvægu spor Jesú Krists upp að krossinum, eru leiðin til lífsins. Pyntingartólinu sem varð að sigurtákni, kjarna og kórónu kærleikans og lífsins.
Ég trúi því að sjálfur almáttugur friðarins Guð, skapari himins og jarðar og allra manna hafi lagt sjálfan sig í sölurnar svo við mættum lífi halda og fengið notið ljóss og friðar utan tíma og rúms um eilífð alla.
Besta gjöf Guðs er hann sjálfur. Sá Guð sem Jesús Kristur birtir okkur, lífið sjálft sem aldrei tekur enda.
Kærleikur Krists er hlið himinsins. Hin endanlega lækning. Náðargjöf Guðs.
Tóm gröf
Veistu að það voru englarnir sem veltu steininum forðum frá hinni dularfullu austurlensku gröf? Það var ekki svo Jesús kæmist út, heldur til að við sæjum inn. Gröfin var tóm!
Veistu að þú getur fengið þessa sömu engla í lið með þér? Til að vaka þér yfir og leiða þig. Vegna þess sem gerðist inni í gröfinni. Jesús var uppvakinn frá dauðum. Hann lifir! Og þú munt lifa! Ef þú vilt.
Erfingjar eilífðarinnar
Himnaríki fær enginn sjálfkrafa í arf. Skiptir þá uppruni eða ætterni ekki máli. Málið snýst um að hlusta og meðtaka, þiggja, fylgja og njóta í auðmýkt og þakklæti.
Lykilinn að lífinu er nefnilega ljósið sem blásið var á en lifnaði aftur og logar enn blítt.
Hann er ljósið leið minni á. Lampi sem yljar og umhverfið vermir. Hönd sem leiðir, líknar og blessar. Elskandi hjarta sem gefur mér frið sem ég get ekki skapað sjálfur eða tekið mér með nokkru móti. Frið sem fæst hvorki keyptur né seldur. Frið og líf sem standa öllum ókeypis til boða. Þótt lífið hafi vissulega verið dýru verði keypt.
Valinn í lið lífsins
Þú sem valinn hefur verið í lið lífsins, hefurðu gert þér grein fyrir að þú ert í sigurliðinu?
Í því hlýtur að vera fólgin ögrun sem hefur áhrif á þig. Mótandi áhrif sem fær þig til að leggja þig fram. Áskorun sem leiðir til þakklætis, kærleika og aga.
Hvað veistu annars mikilvægara og merkilegra en það að vera valinn í lið lífsins og fá að spila með til sigurs? Og þótt einstaka viðureignir kunni að tapast, muntu að lokum standa uppi sem sigurvegari.
Hafðu samt ávallt hugfast að þú ert kallaður til leiks sem leikmaður en ekki sem dómari.
Brot úr demanti
Kærleikur Guðs er líkt og demantur sem fellur til jarðar og splundrast í óteljandi kristalla. Einn þeirra er ætlaður þér svo þú fáir notið þeirra verðmæta um eilífð.
Gættu þess aðeins að pússa perlurnar í lífi þínu svo þær fái notið sín. Því að í þeim felst öll þín hamingja.
Himneskt er að vera með vorið vistað í sálinni, sólina og eilíft sumar í hjarta. Því hamingjan felst í því að vera með himininn í hjartanu.
Lifi lífið!

Sigurbjörn Þorkelsson,
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.