Ástralska biblíufélagið fagnar 200 ára afmæli á þessu ári.

Ástralska biblíufélagið http://www.biblesociety.org.au/   fagnar 200 ára afmæli á þessu ári. Félagið var stofnað í Sydney í New South Wales þann 7. mars 1817. Hátíðarsamkoma verður haldin í Hillsong-kirkjunni Sydney sunnudaginn 5. mars næstkomandi. Henni verður varpað til samkomustaða þar sem fólk mun safnast saman víða um Ástralíu til að halda upp á afmælið. Í tilefni af afmælinu var Ástralska biblíufélaginu færð að gjöf íslensk Biblía frá Hinu íslenska biblíufélagi með áritun frá frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands og forseta félagsins.
Undirritaður, sem er stjórnarmaður í Biblíufélaginu, heimsótti höfuðstöðvar Ástralska biblíufélagsins og afhenti dr. Greg Clarke, framkvæmdastjóra félagsins, gjöfina. Einnig ræddi ég við Scott Walters sem m.a. er viðburðastjóri vegna 200 ára afmælisins. Walters sagði að áhersla verði lögð á „góðu bókina“ og að kynna jákvæðan boðskap Biblíunnar sem á fullt erindi til nútímans.

Ástralska Biblíufélagið starfar af miklum þrótti og síðasta ár var því mjög hagstætt, að sögn Clarke framkvæmdastjóra. Hann sagði það vera höfuðhlutverk félagsins að vera málsvari Biblíunnar í Ástralíu og tala máli hennar auk þess að gera bókina aðgengilega öllum.
Unnið er að þýðingu og útgáfu biblíutexta á málum frumbyggja Ástralíu í samvinnu við Wycliffe Australia. Hlutar Biblíunnar hafa komið út á 29 frumbyggjamálum og Biblían öll á Creole, sem er blanda nokkurra frumbyggjamála. Auk þess er lögð áhersla að kynna Biblíuna fyrir hinum ýmsu aldurshópum enskumælandi Ástrala.
Sjálfstæð biblíufélög störfuðu í hverju ríki Ástralíu allt til ársins 2010 að þau voru sameinuð í Bible Society Australia með höfuðstöðvar í Sydney. Félagið flutti nýlega í nýjar höfuðstöðvar við Macquaire stræti í miðborg Sydney, skammt frá Óperuhúsinu fræga sem er helsta kennileiti borgarinnar. Þar eru skrifstofur félagsins, bókasafn, hljóð- og myndver og ritstjórn bóka og mánaðarritsins Eternity (eilífð). Blaðið flytur fjölbreyttar fréttir af því sem ber hæst í kirkjulífi og trúarlegum straumum í Ástralíu. Því er dreift í bunkum til um 3.000 kirkna víða um landið.

Ástralska biblíufélagið hefur samið við höfundarréttarhafa margra vinsælustu biblíuþýðinga á enskri tungu og gefur þær út í Ástralíu sem sínu sniði. Þannig er hægt að fá biblíutextann ásamt orðskýringum, kortum og ýmsum fróðleik varðandi Biblíuna í sérstökum útgáfum. Einnig Biblíur sem sniðnar eru að börnum og fylgja þá ýmiss konar verkefni með textanum.

Undir hatti biblíufélagsins starfa fleiri stofnanir og fyrirtæki. Félagið festi nýlega kaup á Koorong bókabúðunum sem reka 15 bókaverslanir víða um Ástralíu. Búðirnar leggja áherslu á sölu Biblíunnar og bóka um kristileg málefni.  Centre for Public Christianity CPX (publicchristianity.org) er hugveita sem fjallar um stefnur og strauma í trúarlegum málefnum, ekki síst á vettvangi fjölmiðla.

Guðni Einarsson.