Grein eftir Sigurbjörn Þorkelsson
sem birtist í Morgunblaðinu föstud. 9. des. 2016

Hann hafði valið unga stúlku til þess að fæða son sinn, sjálfan frelsarann okkar í heiminn. Hún var á ferðalagi með kærastanum sínum þegar að því kom að hún skyldi fæða barnið. Hvergi var pláss fyrir þau í mannabústöðum svo þau hröktust inn í fjárhús, þar sem barnið kom í heiminn við vægast sagt heldur nöturlegar aðstæður.
Þessi atburðarás, þetta val Guðs um að birta sjálfan sig með þessum hætti er virkilega eftirtektarvert og mikið umhugsunarefni. Að koma barninu sínu sem var og er bæði Guð og maður í heiminn með þessum hljóðláta og látlausa hætti og við slíkar aðstæður.
Og enn lifir þessi saga um einn allra stærsta atburð veraldarsögunnar. Saga sem fær okkur til umhugsunar, veldur deilum en hefur lifað sem lausn milljóna manna í yfir tvö þúsund ár. Það hlýtur því að vera eitthvað sérstakt við þessa sögu. Því viðbrögðin við henni hafa einstök lífsmótandi áhrif.

Já, þetta eru jólin!
Það komu engir sjúkrabílar við sögu og ekki þyrlur, heiðursvörður, einkasjúkrahús, hallir eða rauðir dreglar. Hvað þá farsímar, internet eða fæðingarráðgjöf. Með djúpri virðingu og þakklæti fyrir öllu hinu frábæra heilbrigðisstarfsfólki síðari tíma, tækni, tólum og tækjum.

Sjálfur Guð kom inn í þennan heim með fátæklegasta og nöturlegasta hætti sem hrakinn flóttamaður til að taka sér stöðu með þeim sem minnst mega sín í okkar hrjáðu, ófriðsömu og hræddu veröld. Hann kom til að veita von, fullkominn kærleika, frið og frelsi sem við skiljum ekki og líf sem við fáum að njóta um eilífð alla.

Hann kom til að auðga líf okkar með því að heita samstöðu og fylgd í öllum aðstæðum. Og því lífi sem við öll þráum í öllum aðstæðum að loknum þeim harðindum sem kunna að fylgja okkur í þessu blessaða jarðlífi.

Takk eilífi Guð fyrir vonina og kærleikan þinn sem er algjörlega yfirnáttúrulegur, óviðjafnanlegur og ómótstæðilegur. Og takk Jesús fyrir lífið.
Með friðar- og kærleikskveðju!
Lifi lífið!