Hið íslenska biblíufélag er þátttakandi í samtökum biblíufélaga um allan heim, Sameinuðu biblíufélögunum (UBS), sem sett voru á stofn árið 1946. Félagið velur úr lista hátt í þúsund verkefna sem unnið er að árlega á vegum biblíufélaga út um heiminn og efnir til safnana meðal félaga sinna og stuðningsaðila þeim til styrktar. Það geta verið útgáfuverkefni, þýðingar, prentun eða dreifing Biblíunnar.

Mállýskur og þýðingar í Keníu
Kenía er eitt þeirra landa sem telst til Austur-Afríku og liggur meðal annars að Sómalíu, Eþíópíu, Súdan, Úganda og Tansaníu. Í Keníu eru töluð 60-70 tungumál, það eru margir ættbálkar í Keníu, margar mállýskur en svahílí og enska eru opinber tungumál. Um 100 fyrir Krist fór fólk í bantu-ættbálki frá Vestur-Afríku að streyma til Keníu. Með þeim hófst akuryrkja og framleiðsla á járnhlutum. Meira en helmingur íbúa er af Bantu-uppruna og tala bantumál. Eitt þeirra tungumála er luhya sem hefur um 18 mismunandi mállýskur. Sameinuðu biblíufélögin hafa stutt við þýðingarstarf og nú hefur Biblían verið þýdd á fjórar luhya-mállýskur. Læsi er almennt gott í Keníu eða um 85% sem er með því hæsta í allri Afríku en metnaður er meðal Keníubúa að mennta sig.

Nýja testamentið á tungumálinu Pnong
Kambódía er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Taílandi í vestri, Laos í norðri og Víetnam í austri. Á árunum 1975 til 1979 réðu Rauðu khmerarnir (Khmer Rouge) yfir öllu landinu. Þetta var harðsnúin kommúnistahreyfing sem ætlaði að skapa jafnréttisríki sveitamanna og hreinsa landið undan erlendum áhrifum en sú umbyltingartilraun endaði með blóðbaði. Margir íbúar flúðu til Víetnam en áætlað er að minnsta kosti 1,5 milljónir Kambódíumanna hafi verið drepnar eða dáið úr hungri. Vegna átakanna hefur það tekið fimmtíu ár en að lokum er það mögulegt fyrir íbúa í Kambódíu og Víetnam að lesa Nýja testamentið á sínu móðurmáli, pnong tungumáli.

150 milljónir Biblía
Sameinuðu biblíufélögin hafa í samstarfi við APC eða Amity Printing Company prentað 150 milljónir eintaka af Biblíum en af þeim 150 milljónum hefur 74 milljónum Biblía verið dreift í Kína. Hjá kristnu fólki í Kína er eftirspurnin eftir Biblíum mikil. Sameinuðu biblíufélögin hafa stutt við þýðingu, útgáfustarf og prentun á Biblíum fyrir Kína.

Hver króna skiptir máli!
Ef þú vilt styðja við alþjóðlegt starf Hins íslenska biblíufélags, í Keníu, Kambódíu, Víetnam eða Kína getur þú lagt inn þína upphæð og tekið þannig þátt í starfinu. Merktu við það land sem þú vilt styðja við í skýringum.

Kt. 620169-7739
reikningsnúmer 0101-26-3555

Hið íslenska biblíufélag þakkar þér fyrir stuðninginn.