Þrjár einfaldar bænir sem hjálpa þér að takast á við erfiða valkosti.

Hugleiðing eftir Nikki Robles

Hefur þú nokkurn tímann þurft að taka stóra ákvörðun sem hefur breytt lífi þínu? Óttaðist þú að taka ranga ákvörðun?

Nýlega lenti ég í slíkum ógöngum.
Fyrir nokkrum mánuðum fékk eiginmaður minn boð um atvinnu. Við vorum bæði himinlifandi vegna þessa tækifæris. Okkur opnuðust fjöldamargar, spennandi gáttir, en einnig ein sem sem var ekki svo spennandi. Við vorum ekki viss um það hvort við vildum láta vaða. Starfið var að finna í rösklega 2.500 kílómetra fjarlægð, hinum megin á landinu. Ef við létum slag standa gætum við eignast nýja vini, fundið nýja kirkju, aðlagast nýjum lífsháttum á glænýjum stað og vissulega fundið fyrir sting í hjartanu við hvert fótmál. Við vorum spennt fyrir tækifærinu. En… í rúmlega 2.500 kílómetra fjarlægð? Skilja alla vini okkar og fjölskyldumeðlimi eftir vegna starfs? Er það virkilega rétt ákvörðun? Gerir fólk í rauninni svona lagað?

Á þessum tíma vissi ég að ég gat ekki treyst einvörðungu á röksemdir mínar eða tilfinningar. Ég bar þessar ógnvekjandi, lífsbreytandi aðstæður undir Guð í bæn. Bænirnar voru einfaldar, en þær voru tíðar. Að lokum komumst við hjónin að niðurstöðu og okkur varð rótt vegna hennar. Okkur fannst að Guð væri með okkur.  Við treystum því að  Hann beindi okkur á réttar brautir.

Tekst þú á við erfiða ákvörðun á þessari stundu? Ef svo er, þá þarft þú ekki að takast á við hana upp á eigin spýtur.

Ef til vill tekst þú á við svipaða ákvörðun sem getur orðið til þess að þú þurfir að flytja landshorna á milli,  eða ef til vill ekki. Erfiðar ákvarðanir eru af öllum stærðum og gerðum. Ef til vill varðar hin stóra ákvörðun þín börnin þín, maka þinn, starf þitt, fjármál þín eða jafnvel heilsu þína. Hvernig sem í öllu liggur, skalt þú biðja Guð um að bera byrðina með þér.

Farðu með þessar bænir með mér er þú glímir við stórar ákvarðanir:

Guð, þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert í lífi mínu. Jafnvel þótt ég sé kvíðin/n einmitt núna, hjálpaðu mér samt að fyllast tilhlökkun vegna þeirra áætlana sem þú hefur um framtíð mína.
Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn. Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum. Jes. 55.8-9.

Ef þetta er það sem þú hefur lagt mér á hjarta, opnaðu þá dyrnar upp á gátt. Og ef þetta er ekki það sem þú hefur í huga fyrir mig, skelltu þá í lás, Guð.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig. Sálm. 25.4-5.

Guð, leiðbeindu mér á þessum erfiða tíma. Gefðu mér visku, þolinmæði og traust.  Viltu færa mér frið og halda áfram að leiðbeina mér við lok þessa mikla ákvarðanaferlis.

Drottinn veitir lýð sínum styrk, Drottinn blessar lýð sinn með friði. Sálm. 29.11.
——–
Nikki Robles er vefmarkaðssérfræðingur við Hið bandaríska biblíufélag. Hún ólst upp í Maryland og lagði síðan stund á nám við háskólann í Valley Forge þar sem hún lauk BA-gráðu í stafrænni fjölmiðlafræði og biblíufræðum og býr nú í Fíladelfíu. Nikki starfar sem framkvæmdastjóri skapandi lista í heimakirkju sinni og nýtur þess að fegra heimili sitt um helgar.