Í fyrstu var Ida Jessen hikandi gagnvart þeirri hugsun að endursegja Biblíuna. En hún stóðst ekki þá freistingu að sökkva sér niður í frumtextana og túlka þá. Niðurstaðan er barnabiblía um samspil Guðs og manna og um göngu Jesú til móts við dauða sinn og upprisu.

Ida Jessen
Ida Jessen, fædd 1964, er cand.mag. í bókmenntasögu og fjölmiðlafræði. Hún hefur skrifað fjöldann allan af smásögum og skáldsögum fyrir fullorðna,  nú síðast En ny tid (Nýr tími) frá árinu 2015, sem hefur fengið lof gagnrýnenda. Auk þess hefur hún skrifað bækur, bæði fyrir lítil og stálpuð börn, og hún hefur áður unnið með myndlistarmanninum Hanne Bartholin, meðal annars að hinum vinsælu barnabókum um fílsungann Karl.

Ida Jessen hefur tekið við fjölda verðlauna, meðal annars hinu gyllta lárviðarlaufi, sem hún vann árið 2009, þegar skáldsaga hennar, Börnin, kom út. Auk þess er Ida Jessen félagi dönsku akademíunnar.

Þegar Biblíufélagið spurði rithöfundinn Idu Jessen á sínum tíma, hvort hún vildi skrifa nýja barnabiblíu fyrir forlagið, var fyrsta hugsun hennar „nei“. Nei, það gat hún ekki þá. Hún skrifaði vissulega skáldsögur og þetta verkefni myndi taka allt of langan tíma.

En það var samt sem áður eitthvað sem seiddi. Ida Jessen hefur allt sitt líf verið innan um presta. Nú gafst raunverulegt tækifæri til þess að sökkva sér niður í gamlar ritningar, túlka þær sjálf og segja frá þeim.

Ida Jessen samþykkti því verkefnið, og í maí 2016 komu Biblíusögur hennar út, myndskreyttar af Hanne Bartholin.

Í bókinni endursegir Ida Jessen 29 þekktustu biblíusögurnar. Ekki er laust við, að hún hafi sett sitt mark á skrifin.

„Ég hef markað þá stefnu, að Guð er aðalpersónan í Gamla testamentinu, en hann heldur sig til hlés í Nýja testamentinu, þar sem minna ber á honum í þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Hér lætur hann syni sínum, sem kemst nær fólkinu en hann sjálfur, eftir sviðið.“

Í upphafi…

Í endursögn Idu Jessen á Gamla testamentinu er líf Guðs samofið lífi fólksins. Og hann kemur dálitlu af stað, sem veldur uppnámi.

„Í Gamla testamentinu þekkir Guð ekki heiminn, því að hann er nýbúinn að skapa hann. Þess vegna reynir hann heiminn á fólkinu. Hvað gerist, þegar tekið er við þakkarfórn Abels en ekki Kaíns? Þá sprettur afbrýðisemin fram, sem hefur hræðilegar afleiðingar.“

Þegar maðurinn stendur frammi fyrir einhverju illu, spyr hann: „Hvers vegna ég?“ Og þá er svar Guðs: „Ekki vegna þess að þú eigir það skilið.“

Fyrsti hluti Gamla testamentisins nær hámarki í endursögn Idu Jessen á sögunni um Job, þar sem Guð tekur þátt í veðmáli við Satan.  Samkvæmt rithöfundinum felur sú saga í sér sérstakt siðferði fyrir fólk í dag:

„Á meðan ég skrifaði einmitt þessa sögu, hugsaði ég: „Kom það fram, Guð, hver merkingin er?“ Og þá steig hann fram og sagði: „Já, en það er engin merking.“ Þegar maðurinn stendur frammi fyrir einhverju illu, spyr hann: „Hvers vegna ég?“ Og þá er svar Guðs: „Ekki vegna þess að þú eigir það skilið.“

Sonur Guðs

Þar sem textarnir í Gamla testamentinu eru afmarkaðar sögur, reyndi á Idu Jessen í enn ríkari mæli, þar sem hún sökkti sér niður í innskotsfrásagnir Nýja testamentisins.

„Ég vildi segja frá Nýja testamentinu eins og skáldsögu, þar sem hver einstakur atburður rekur annan. Þess vegna hef ég áskilið mér rétt til þess að skipta út nokkrum atburðum, rétt eins og gert er í guðspjöllunum. Og ég hef samræmt frásagnirnar um son Guðs, þannig að þær verði hluti af göngunni löngu til Jerúsalem,“ segir hún.

„Ef ekki hefði verið fyrir Tomma og Önnu, hefði ég ekki verið eins ánægð með Línu langsokk. Á sama hátt hef ég samsamað mig við Pétur.“

Ida Jessen ber Jesú saman við glerstrending. Hægt er að snúa honum og beygja hann, og sólin finnur alltaf nýja leið til þess að skína í gegnum hann.

„Ég hef snúið glerstrendingnum, eins og mér finnst ég geta, út frá okkar tíma og þeirri manneskju sem ég er.“

Matteusarguðspjall hefur sérstaklega veitt henni innblástur til þess að snúa glerstrendingnum. Hér koma ritningarnar rækilega inn á líf Péturs, sem loks afneitar Jesú.

„Ef ekki hefði verið fyrir Tomma og Önnu, hefði ég ekki verið eins ánægð með Línu langsokk. Á sama hátt hef ég samsamað mig við Pétur. Hann ber upp þær spyrningar, sem einnig brenna á okkur hinum: Hvers vegna á að krossfesta þig?“ Og það er ekki hægt að skilja, hvorki sem barn né fullorðinn.“

Á gönguför

Í endursögn sinni hefur Ida Jessen lagt áherslu á, að Jesús er á ákveðinni gönguför — einmitt til móts við dauða sinn og upprisu.

„Þetta er sagan um mann, sem velur sinn eigin dauða, um Guðs son, sem verður deyddur,“ segir hún.

Þess vegna lætur Ida Jessen lesandann taka afstöðu til þess frá upphafi, þegar Jóhannes hefur skírt Jesú. Eftir skírn Guðs sonar situr Jóhannes sama kvöld við bálið sitt og íhugar fund sinn með Jesú:

Það heyrðist lágvært þrusk í holu á gólfinu. Engispretta hafði vogað sér fram úr horninu á hellinum. Jóhannes lá grafkyrr. Þegar hún var komin fyrir framan hann, rétti hann aðra höndina út. Hann náði henni aftan frá, þannig að hún varð einskis vör, stakk henni á pinna og glóðaði hana yfir bálinu. Hann lagði sér hana til munns. Síðan lagðist hann aftur í sandinn og varð grafkyrr. Honum varð hugsað til þess sem Jesús hafði sagt: „Jú, þú skalt skíra mig,“ hafði hann sagt, „þvi að Guð þarfnast mannanna, og Mannssonurinn einnig. Ég er fæddur af mannveru, maður nokkur á að skíra mig, og bráðum, þegar ég dey, munu mennirnir drepa mig.“

Ný engispretta hætti sér fram. Jóhannes sá hana nálgast. Hún tók undir sig stökk og lenti ofan á bringunni á honum, sat þar og lét fara vel um sig. Hann gat séð eldinn leika í gljáandi skildi hennar. En hann leyfði henni að vera um kyrrt.

Deyja? Drepa? Og bráðum? Hvað hafði Jesús átt við með því? Og hvað hafði orðið af honum?

Gangan til móts við Jerúsalem og dauðinn eru drifkraftur frásagnar Idu Jessen um Jesú. Annar drifkraftur er skopskynið. Hún álítur nefnilega, að það sé alltaf eitthvað skoplegt að finna í mannlífinu:

„Hugsaðu bara út í söguna um systurnar Mörtu og Maríu. María er á þönum í eldhúsinu, hún hefur gert eggjabökur allan morguninn og nú vaskar hún upp í sífellu, og á meðan situr María bara og talar við Jesú. Marta öfundar Maríu, sem axlar enga ábyrgð á gestaboðinu, og hún skilur ekki, hvers vegna María er sú þeirra tveggja, sem gerir það sem rétt er.“

Hvernig skyldi mesti níðingurinn líta út að innan?

Þar sem Ida Jessen  skrifar skáldsögur er hún afar upptekin við að fara alla leið í viðfangsefnum sínum. Þess vegna hefur hún reynt að setja sig algjörlega í spor Júdasar, sem aldatugum saman hefur mætt hatri, en er ef til vill umfram allt maður.

„Hvernig skyldi mesti níðingurinn líta út að innan? Lítur hann á sjálfan sig sem níðing? Veit hann að hann gerir þetta? Biblían er svo blæbrigðarík, eins og ég vil gjarnan sýna fram á.“

Og Ida Jessen lítur einnig á texta Biblíunnar sem uppsprettu hvatningar, því að hún afhjúpar okkar eigin mennsku.

„Ég hef viljað segja: „Þetta er umdeilt viðfangsefni, reynið að sjá það!“

Vinna Idu Jessen við að endursegja Biblíuna hefur veitt henni blæbrigðaríkari mynd af því, sem hinar gömlu ritningar geta sagt okkur.

„Þegar ég féllst á þetta, gat ég í raun ekki vitað, hversu spennandi þetta varð, hreint út sagt.“

=====================================
Ida Jessen er einn þekktasti rithöfundur Danmerkur. Nú hefur hún skrifað Biblíusögur  — barnabiblíu með 29 lifandi frásögum, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu.

Hin verðlaunaða Hanna Bartholin hefur prýtt bókina með dásamlegum myndum í þessari fallegu bók í stóru broti.

Sjá nánar á http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2016/bibelhistorier_ida_jessen